Topplið FH í Olís deild karla mátti í fyrsta sinn sætta sig við tap í kvöld. Voru það Eyjamenn sem urðu fyrstir til að leggja okkar menn að velli í kaflaskiptum leik, en honum lauk 33-34 fyrir gestina.

Leikurinn byrjaði ágætlega hjá liði FH, sem var með forystuna fyrstu 20 mínútur leiksins eða svo. Eyjamenn voru þó aldrei langt undan, vanalega munaði 1-2 mörkum á liðunum og allt útlit fyrir hörkuleik til enda. Þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan jöfn, 11-11, og virtist allt saman vera í jafnvægi. Þá hófst hins vegar sá leikkafli sem í raun réði úrslitum í leiknum.

Síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks, sem er slakasti leikkafli sem FH hefur spilað í vetur, vann lið ÍBV 2-8. Fyrir vikið fóru Eyjamenn með óþarflega stóra forystu inn í hálfleik, 13-19. FH-ingar sýndu þarna á sér hliðar sem ekki hafa verið áberandi það sem af er tímabili. Varnarleikurinn var ekki nægilega þéttur og þá var sóknarleikurinn klúðurslegur. Ógrynni tæknimistaka voru gerð í sókninni, og slíkt má einfaldlega ekki gegn liði eins og ÍBV. Slíkt nýta þeir sér, alltaf.

Einar Rafn hefur oft spilað betur en í fyrri hálfleik, en var mjög sterkur í þeim síðari / Mynd Brynja T.

FH-ingar eiga hrós skilið fyrir það hvernig þeir mættu til leiks í síðari hálfleikinn. Strákunum okkar tókst að gera þetta að leik á ný og voru þeir búnir að minnka muninn niður í tvö mörk þegar 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Það er hins vegar erfitt að standa í eltingaleik, ekki síst þegar munurinn sem þurfti að vinna upp var þetta stór. Eyjamenn náðu yfirleitt að svara strax eftir að FH-ingar komust marki nær, og slíkt er einfaldlega vont að yfirstíga.

Strákarnir sýndu mikla baráttu allt til enda og náðu að jafna muninn þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, en að endingu höfðu Vestmannaeyingar heppnina og hausinn í það að klára leikinn. Í umboði slakra dómara leiksins fengu Eyjamenn allan þann tíma sem þeir vildu í lokasóknum leiksins, og náðu að lokum að landa eins marks sigri eins og áður sagði. Lokatölur 33-34, ÍBV í vil.

Líkt og skáldið sagði: áfram gakk. Liðsmenn FH eru breyskir eins og við hin. Á einhverjum tímapunkti gátu strákarnir átt ,,off“ leik, og hann kom í dag. Er það nokkuð skrítið, sé horft til þess sem gengið hefur á? Í annað sinn á örfáum vikum máttu strákarnir ferðast alla leið til Rússlands, sem er meira en að segja það. Svo ekki sé nú talað um þann viðburð sem þar fór fram. FH-ingar komu til Rússlands, sáu og sigruðu í aðstæðum sem voru afar krefjandi andlega. Þessi vítakeppni lá eins og mara á liðinu, en það sigraðist á því. Smá spennufall hlýtur að fyrirgefast.

Gísli Þorgeir var sérlega góður í síðari hálfleik / Mynd: Jói Long

Gísli Þorgeir átti góðan leik í kvöld, sérstaklega í síðari hálfleiknum þegar eltingaleikurinn stóð sem hæst. Hann skoraði 7 mörk og var markahæstur, ásamt Einari Rafni. Einar Rafn hefur oft átt betri hálfleika en þann fyrri, en hann hristi af sér slenið í þeim síðari. Alvöru maður. Næstur á eftir þeim kom Óðinn Þór með 5 mörk, þar af tvö glæsileg sirkusmörk.

Það var vel mætt í Krikann í kvöld og góð stemning. Takk fyrir komuna! / Mynd: Valgeir Sig.

Blessunarlega er stutt í næsta verkefni, en sá leikur er á sunnudag. Þá halda strákarnir austur fyrir fjall og spila við skemmtilegt lið Selfyssinga í Vallaskóla. Þar er um afar krefjandi verkefni að ræða, en lið Selfoss hefur að skipa nokkrum af efnilegustu – og hreinlega bestu – leikmönnum deildarinnar. Ef það er eitthvað lið sem getur, hins vegar, farið yfir Ölfus og sótt tvö stig í greipar Selfyssinga, þá er það okkar lið. Engin spurning.

Við erum FH!

Mörk FH: Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Einar Rafn Eiðsson 7/1, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Ásbjörn Friðriksson 4/3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Jón Bjarni Ólafsson 3, Ágúst Birgisson 3, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 6, Birkir Fannar Bragason 5/1.