Þó að lokatölur gefi annað til kynna, var leikur laugardagsins lengst af jafn eins og úrslitaleikjum sæmir. Sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem FH-ingar voru með yfirhöndina að mestu. Strákarnir mættu vel stemmdir til leiks, við fengum góða vörn og markvörslu og fram á við voru Óðinn Þór og Einar Rafn stórkostlegir. Við fórum inn í hálfleikinn með eins marks forskot. Í fyrsta leik einvígis á erfiðum útivelli, var það einstaklega vel þegið.

Seinni hálfleikur byrjaði vel, við náðum upp þriggja marka forskoti en eftir það fór að halla undan fæti. Það fór að telja, að Ásbjörn Friðriksson var búinn að vera fjarverandi frá því snemma leiks. Ekki það að þeir sem komu í hans stað hafi ekki staðið sig, en þegar í svona leik er komið viltu njóta krafta Fógetans. Eyjamenn náðu smám saman yfirhöndinni, og lokaniðurstaðan var tap. 6 marka tap, helst of stórt fyrir minn smekk, en þegar út í það er farið þá gildir markatalan einu í úrslitakeppni. FH 0 – 1 ÍBV, það er það eina sem telur.

Úrslitakeppnin er refskák. Við sáum það vel í síðasta einvígi á móti Selfossi. Leikur eitt er farinn, búinn. Nú er það að svara með klókum leik. FH-ingar sýndu það gegn Selfyssingum að þeir eru færir um slíkt. Selfyssingar höfðu, fram að einvíginu, hentað okkar liði frekar illa sem andstæðingur. Báðum deildarleikjum liðanna lauk með sigri Sunnlendinga, sem fyrir vikið skriðu fyrir ofan okkur í töflunni. Í þessari viðureign fundum við hins vegar lausnir. Síðasti leikurinn, oddaleikurinn á Selfossi, var í raun aldrei í hættu. Við áttum þann leik frá upphafi til enda. Dóri og Árni, skák og mát.

Sú þrautseigja sem FH-ingar sýndu í einvíginu við Selfyssinga gefur manni sannarlega ástæðu til að finna fyrir bjartsýni það sem eftir lifir af úrslitaeinvíginu, þrátt fyrir tap í fyrsta leik. Í fyrsta leik í Vallaskóla mátti finna, að strákarnir voru að færast nærri því að geta landað sigri þar. Gegn góðu Selfossliði, sem hvergi leið betur. Það var skellur að missa niður góða forystu, en okkar menn létu það ekkert á sig fá. Sigurinn átti eftir að detta. Og það gerði hann í lokin.

Strákarnir okkar töpuðu kannski leiknum á laugardag, á erfiðum útivelli, en þetta færist allt í rétta átt. Halldór Jóhann sagði eftir leik að honum hefði fundist FH-liðið vera með leikinn í höndum sér, en klúðrað málum sjálft þegar á leið. Of mörg atriði komu upp þar sem FH-ingar gerðust sekir um klaufaskap, og slíkt er einfaldlega ekki í boði þegar í úrslitaeinvígi gegn dýrasta liði landsins er komið.

Það góða við það, að slík atriði hafi gert út um leikinn, er að það er algjörlega í okkar höndum að lagfæra vitleysurnar. Meiri einbeiting varnarlega séð og minni sveiflur sóknarlega, þá vinnum við ÍBV.

Strákarnir hafa getað treyst á Krikann sem gryfju það sem af er þessari úrslitakeppni, og ég treysti því að svo verði áfram! Það gefur þeim svo mikið að hafa stuðning ykkar í slagsmálum sem þessum – og já, þetta verða mikil slagsmál. Þannig er það alltaf þegar þessi lið mætast.

Skyndilega er hægt að sigla frá Landeyjahöfn, þannig að búast má við fjölmenni úr Eyjum. Ég treysti því að enginn FH-ingur sitji veðurtepptur heima. Forðumst biðraðir, mætum snemma og með læti!

Við erum FH!