YFIRLÝSING FIMLEIKAFÉLAGS HAFNARFJARÐAR VEGNA UMRÆÐU Í
FJÖLMIÐLUM
Fimleikafélag Hafnarfjarðar vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umfjöllunar
í fjölmiðlum síðustu daga og vegna ummæla Guðlaugar Kristjánsdóttur
bæjarfulltrúa í Hafnarfirði í útvarpsþættinum Sprengisandi 26. ágúst 2018.

• Fullyrðing um að Knattspyrnusamband Íslands hafi greitt FH kr. 48
milljónir á árunum 2015-2018 er ósönn. Félagið hefur ekki fengið krónu
vegna fyrirhugaðs knatthúss, sjá meðfylgjandi yfirlýsingu frá KSÍ.

• Látið er að því liggja að fjárhagsstaða félagsins sé veik. Það rétta er að
skv. endurskoðuðum ársreikningi félagsins fyrir 2017 er eigið fé félagsins
1.100 milljónir. Félagið á því miklar eignir. Eftirlitsnefnd með fjármálum
íþróttafélaga í Hafnarfirði hefur yfirfarið reikninga og fengið upplýsingar
síðustu ár og ekki gert athugasemdir.

• Meðal þeirra eigna sem bærinn kaupir með samningi við FH er
íþróttahúsið í Kaplakrika en félagið eignaðist það með samþykkt í
bæjarstjórn árið 1989. FH stóð sjálft straum af byggingu Risans og
Dvergsins. Bærinn hefur, líkt og með önnur íþróttamannvirki, leigt tíma í
Risanum samkvæmt meðfylgjandi leigusamningi. Ekki hefur verið gerður
samningur við bæinn vegna Dvergsins, heldur hafa foreldrar iðkenda og
félagið sjálft staðið undir kostnaði vegna hans. Sú upphæð nemur tugum
milljóna.

• Fimleikafélag Hafnarfjarðar lýsir yfir ánægju með að meðferð málsins sé
komin á þann stað að lausn á aðstöðuvanda um 1.000
knattspyrnuiðkenda í FH sé á lokametrunum. Þessi lausn gerir börnum
og unglingum félagsins mögulegt að æfa íþrótt sína á skikkanlegum tíma
í heimabyggð.

Hafnarfjörður 29. ágúst 2018
Fimleikafélag Hafnarfjarðar

Yfirlýsing KSÍ

Leigusamningur v.Risans