Það er varla annað hægt en að brosa þegar maður hugsar um síðustu leiki FH og Selfoss. Undanúrslitarimman síðasta vor var stórfengleg skemmtun jafnt í Hafnarfirði sem og við Ölfusá. Hún endaði á sykursætum sigri okkar manna í oddaleik á útivelli, eftir að FH jafnaði á lokasekúndum fjórða leiksins og tryggði oddaleikinn í framlengingu. Í deildinni enduðu liðin á jafnmörgum stigum en Selfyssingar voru fyrir ofan í töflunni vegna betri árangurs í innbyrðisviðureignum.

Það vita allir handboltáhugamenn að Selfoss liðið er ungt og spennandi. Patrekur Jóhannesson tók við liðinu fyrir rétt rúmu ári og fékk í hendurnar heilan herskara efnilegra stráka sem hann hefur verið að móta í lið síðan. Þeir sendu heitan Teit í atvinnumennsku í sumar en fengu í staðinn þrjá leikmenn inn. Þar munar líklega mest um Pawel Kiepulski markmann, en markmannsstaðan var svakalegur hausverkur fyrir Selfyssinga á síðasta tímabili. Hvort fínn markmaður sé púslið sem þá vantar til að landa titli verður að koma í ljós.

Þeir hafa varið vel af stað á tímabilinu, sitja á toppi deildarinnar ósigraðir og unnu síðast Val með fjórum mörkum á miðvikudaginn. Þeim finnst líklega sætara að vera komnir áfram í EHF-bikarnum og eru tveimur leikjum frá því að komast í riðlakeppnina þar. Það hafa margir verið að spila vel hjá þeim, en í markaskorun eru þrír leikmenn komnir yfir tuttugu mörk en engin afgerandi bestur af þeim.

Bjarni Ófeigur átti góða leiki gegn Benfica / Mynd: Jói Long

Okkar menn í FH luku keppni í Evrópu um síðustu helgi í Lissabon, leikir þar sem okkar menn náðu aldrei að spila sinn besta leik. Jóhann Birgir og Bjarni Ófeigur, ásamt Ása Friðriks, báru af okkar mönnum og koma rjúkandi heitir inn í þennan leik. Strákarnir eru ósigraðir í deildinni, tveimur stigum á eftir Selfossi með leik til góða. Það er ekki hægt að kvarta yfir að leikirnir hafi ekki verið spennandi, því liðið er komið með sjö stig og markatöluna fjóra.

Síðasta árið hafa þessi lið mæst sjö sinnum. Það er ekkert leyndarmál að okkar menn lentu í bölvuðu basli í sumum leikjanna, sérstaklega þegar Selfyssingar fóru í sína hörku framliggjandi vörn. Þegar kom í úrslitakeppnina voru strákarnir farnir að finna betur glufur á henni og unnu eins og áður sagði undanúrslitin. Selfyssingar eru líklega búnir að hugsa um að koma aftur í Kaplakrika til að ná fram hefndum í allt sumar.

Þessi leikur er á laugardagskvöldi og ekki hægt að biðja um mikið betri uppskrift að skemmtun. Tvö ósigruð lið, sem þekkja hvort annað út og inn í fallegasta handboltasal landsins. Það munu væntanlega koma rútur af Selfyssingum á leikinn að styðja liðið eins og þeir hafa gert svo frábærlega síðustu ár og það er á okkur FH-ingum að svara því fullum róma! Þetta er fyrsti risaleikur vetrarins í Krikanum, það verður úrslitakeppnisstemning á honum og við ætlum að gefa allt í hann í stúkunni, rétt eins strákarnir munu gefa allt í hann á parketinu. Þetta verður jafn leikur en ég ætla spá að FH-ingar nái aftur í eins marks sigur!

KOMA SVO!

-Ingimar Bjarni Sverrisson