Loksins, loksins, loksins! Þessi blessaða B-landsliðspása búin og við getum aftur hlammað okkur á pallana í Kaplakrika á sunnudagskvöldi. Ágúst Birgisson, Arnar Freyr og Einar Rafn fóru til Einars Andra og Gumma Gumm á nokkrar æfingar en að því loknu var viku pása, sem okkar menn nýttu vel til að æfa saman. Nú má ballið byrja á ný.

Stjarnan

Það var vitað mál fyrir tímabil að Stjarnan myndi þurfa að finna sig aðeins upp á nýtt. Liðið hefur verið að spila undir getu í nokkur ár og ákváðu Garðbæingar að fá Rúnar Sigtryggson til að taka við því, en hann hafði áður þjálfað í Þýskalandi um nokkurra ára skeið. Breytingar á leikmannahópnum voru kannski minni en búist var við, og Rúnar er því að vinna að mestu með sama hóp og varð í sjöunda sæti í deildinni í fyrra.

Það er erfitt að missa sig ekki í að lýsa hversu illa Stjarnan hefur farið af stað í deildinni. Þeir lágu fyrir Aftureldingu í fyrstu umferðinni, stóðu svo næstum í ÍBV en uppskáru ekkert og var síðan pakkað saman af Val í þriðju umferðinni. Ég ætla ekki að fara út í að vitna í það sem fjölmiðlamenn hafa sagt um spilamennsku liðsins, en það hefur verið á neikvæðari nótum en um flest önnur lið.

Sveinbjörn Pétursson er búin að taka út leikbann frá því í síðustu úrslitakeppni en hann á víst líka við einhver meiðsli að stríða, spurning hvort hann verði með. Eins voru Ari Magnús Þorgeirson og Egill Magnússon frá gegn Val vegna meiðsla, en ég veit hreinlega ekki hversu alvarleg þau meiðsli voru. Munar um minna en fjarveru þeirra.

Stóra spurningin við þetta lið er hvernig það mætir til leiks. Þeir eru búnir að fá að liggja á þessari sextán marka slátrun Valsara í tvær vikur og Rúnar hefur væntanlega látið þá æfa stíft. Ef þessi skellur var ekki nóg til að kveikja smá eldmóð í þeim geta Garðbæingar byrjað að hafa miklar áhyggjur af þessu tímabili í heild.

Strákarnir okkar

FH er eitt fjögurra ósigraðra liða eftir þrjár umferðir, en ásamt okkar mönnum eru Valur, Selfoss og Afturelding með fimm stig á töflunni. Sigurinn á Gróttu í síðustu umferð hefði alveg mátt vera þægilegri en það er greinilegt að leikmenn liðsins kunna þá list að klára jafna leiki, sem er stór kostur í þessari íþrótt sem annarri. Leikmenn liðsins hafa verið að detta í gang, nú síðast Ágúst Birgisson sem setti fimm mörk í fyrri hálfleik gegn Gróttu, þó Ási og Jói beri höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í markaskorun.

Ási hefur, að mati margra, verið besti leikmaður Olísdeildarinnar til þessa. Við tökum hjartanlega undir þau sjónarmið! / Mynd: Jói Long

Þegar fyrri leikir liðsins eru skoðaðir koma í ljós nokkrir yfirburðir okkar manna. Það var síðast árið 2011 sem Stjarnan bar sigurorð af okkar mönnum í deildinni og tvö ár eru síðan liðin gerðu síðast jafntefli. Síðast þegar liðin mættust vann FH-liðið öruggan 12 marka sigur í lokaumferð deildarkeppninnar síðastliðið vor.

Fyrir helgi barst sú frétt að markvörðurinn Kristófer Fannar Guðmundsson væri búinn að skrifa undir hjá liðinu. Tíminn verður að leiða í ljós hvort hann verði með í kvöld, en víst er að nú eru mennirnir orðnir ansi margir að slást um stöðuna milli stanganna. Fínt að hafa samkeppni innan liðsins.

Spá

Sama hversu vel Stjarnan spilar í kvöld, er þetta skyldusigur fyrir FH. Ég ætla að spá því að nú stígi Einar Rafn upp og fari hamförum og leiði strákana í öruggan fimm marka sigur. Við stuðningsmennirnir verðum á okkar stað á pöllunum, með magafylli af hamborgurum og stórar raddir!

VIÐ ERUM FH!

-Ingimar Bjarni