Eftir baráttusigur á ÍR í bikarnum síðastliðinn laugardag er nú komið að því að beina sjónum aftur að deildarkeppninni. Stelpurnar okkar taka annað kvöld á móti liði Vals U í Krikanum, í leik sem nokkuð erfitt er að spá fyrir um hvernig mun þróast.

Valur U hefur farið ágætlega af stað á þessu tímabili, og situr í 6. sæti deildarinnar með 8 stig eftir 6 leiki – stigi á eftir FH-liðinu, sem þó á leik til góða á Hlíðarendastelpur. Fjórum leikjum hefur lokið með sigri, þremur leikjum með tapi og það er óhætt að segja að það hafi gengið á ýmsu.

Þegar Valsstelpur vinna, þá gera þær það með 6,75 mörkum að meðaltali. Þegar þær tapa, þá gerist það með 7,3 mörkum. Það er ýmist í ökkla eða eyra, varla nokkur millivegur. 13 marka tapi gegn næstneðsta liði deildarinnar, Fjölni, fylgdu Valsstelpur eftir með 3 sigrum í röð – þar af 13 marka stórsigri á Stjörnunni U og 3 marka sigri á einu besta liði deildarinnar (Fylki) á útivelli.

Þegar rýnt er í mannskap Vals U og viðveru í leikjum, þá á brotlendingin gegn Fjölni sér e.t.v. eðlilegar skýringar. Í þeim leik voru þrír markahæstu leikmenn liðsins fjarverandi, þ.e. þær Ásdís Þóra Ágústsdóttir, Auður Ester Gestsdóttir og Alina Molkova. Við slíkum missi mega fæst lið. Saman hafa þær stöllur skorað 90 mörk af þeim 165 sem Valsliðið hefur skorað, til að mikilvægi þeirra fyrir liðið sé undirstrikað.

Alina Molkova hefur leikið með Val U í vetur, eftir að hafa slegið í gegn með Víkingi undanfarin ár / Mynd: Heimasíða Vals

Þeirra markahæst er hin unga Ásdís Þóra, sem skorað hefur 43 mörk í leikjunum 6. Hún er aðeins 16 ára gömul, og er greinilega mikið efni. Að vera þetta aðsópsmikill leikmaður á þessum aldri er ekki fyrir alla. Það sem upp úr stóð fyrir mér, þegar ég var að grúska í leikskýrslum mótsins til þessa, var hins vegar nafn hinnar eistnesku Alinu, sem næstmarkahæst er í liðinu miðað við leiki spilaða.

Alina Molkova, eins og þeir vita sem fylgst hafa með Grill 66 deild kvenna síðustu árin, flutti upphaflega til landsins til að leika með Víkingi undir stjórn Díönu Guðjónsdóttur. Á þeim tveimur árum sem hún lék með Fossvogsliðinu reyndist hún því heldur betur drjúg. Skoraði hún 138 mörk í 14 leikjum í fyrra, eða 36% marka Víkingsliðsins, sem er þó lakari árangur en hún náði árið áður þegar hún skoraði 238 mörk í 21 leik – 48% marka Víkingsliðsins! Þegar hún gekk til liðs við Val í Olís deildinni nú í sumar átti ég ekki endilega von á að sjá hana í næst efstu deild um sinn, en sú er nú raunin. Á henni verður að hafa góðar gætur sé hún með annað kvöld, svo mikið segir tölfræðin okkur.

Gleðin var ósvikin í leikslok á laugardag / Mynd: Brynja T.

Ekki það að ég hafi nokkrar áhyggjur af stelpunum okkar. Þær eru á góðu skriði. Eftir jafntefli gegn Fylki í æsispennandi leik og upprúllun á Gróttu úti á Nesi mættu þær eins og áður sagði toppliði deildarinnar, ÍR, í bikarkeppninni á laugardag. Þar unnu FH-stelpur frábæran sigur á sterku liði Breiðhyltinga, sem unnið hefur alla sína 6 leiki í deildinni til þessa og flesta með sannfærandi hætti.

Það var líka ekki bara það að þær skyldu vinna þann leik, heldur hvernig. Marki undir og mínútu frá leikslokum sýndu þær stáltaugar sem skila liðum langt. Þessa einlægu gleði í leikslok, sem vel var skrásett með myndum og stiklum, var líka gaman á sjá. Þarna er á ferðinni alvöru lið.

Valsliðið mætir til leiks fullskipað og þess fullvisst, að það geti hirt tvö stig í Kaplakrika. Það er hægara sagt en gert að brjóta þær á bak aftur, sé allt eðlilegt. En stelpurnar okkar eru klárar í hvað sem er, og eru tilbúnar að taka þann slag.

Verjum heimavöllinn með þeim. Sækjum stigin tvö.

Við erum FH!

– Árni Freyr