Það er ekkert fúlara en að tapa, nema kannski að tapa fyrir botnliði deildarinnar. Strákarnir okkar hafa lítið hlegið á leiðinni heim eftir svekkjandi tap fyrir norðan um síðustu helgi. Núna er tækifæri til að hefna fyrir tapið gegn Akureyringum – reyndar ekki sömu Akureyringum, en látum það ekki trufla.

Andstæðingurinn – KA

Árið 2006 sameinuðust lið KA og Þórs í handbolta, undir merkjum Akureyrar. FH-ingar minnast hins nýja liðs líklega mest fyrir úrslitaeinvígið 2011. Það sama ár urðu Akureyringar deildarmeistarar en eftir það fór liðinu hrakandi. Næstu ár voru þeir voru hangandi um miðja deild þangað til þeir kolféllu árið 2017 niður í fyrstu deild.

Sumarið 2017 ákváðu KA menn að það væri komið gott af þessu samstarfi. Sjálfum finnst mér magnað að það hafi enst í rúman áratug – get til samanburðar ekki ímyndað mér að samstarf FH og Hauka myndi endast í tíu mánuði, hvað þá tíu ár. Nýtt lið KA endaði í öðru sæti í Grill-66 deildinni í fyrra og rústaði HK í umspilinu um sæti í deild hinna bestu.

KA er kannski það lið sem hefur komið mest á óvart í deildinni í vetur. Liðið breyttist lítið í sumar og fyrir tímabil var þeim spáð rakleitt niður aftur en eins og stendur eru þeir í sjöunda sæti. Það eru reyndar ekki nema tvö stig í fallsæti, pakkinn er mjög þéttur fyrir neðan miðju. Þeir byrjuðu tímabilið á tveimur sterkum sigrum, öðrum í æsispennandi leik gegn nágrönnum sínum, hinum í slátrun á nágrönnum okkar. Síðan þá hafa stigin tikkað inn hér og þar í bland við svekkjandi töp.

Í síðustu umferð töpuðu þeir  20-22 fyrir Val í leik, þar sem markverðir beggja liða fóru hamförum. Þetta KA-lið getur á góðum degi unnið öll lið í deildinni og munu mæta í Kaplakrika með skottið upp.

Einar Rafn var verulega góður í síðasta leik / Mynd: Jói Long

Okkar menn

Það er lítið að segja um síðasta leik FH-inga. Hann klúðraðist einfaldlega og kom þar bersýnilega í ljós hversu mikilvægur Fógetinn er. Það vantaði skipulag, það vantaði ákefð og það vantaði trú á verkefnið. En það er hægt að draga góða punkta úr leiknum. Fyrst og fremst að í fjarveru Ása steig Einar Rafn upp og setti 11 mörk, vonandi er það fótfesta sem hann getur spyrnt af og fundið formið sitt frá því í fyrra. Að sama skapi er Bjarni Ófeigur að finna taktinn betur og það verður spennandi að sjá hann halda áfram að vaxa í hlutverki sínu.

Okkar menn sitja eins og stendur í fjórða sæti í deildinni. Þeir hafa varla unnið sannfærandi sigur, en að sama skapi hafa þeir ekki tapað sannfærandi. Það er heill hellingur af karakter í liðinu og þeir munu bara verða betri eftir því sem líður á tímabilið. En við getum ekki gengið að neinu vísu í þessari deild.

Þessi leikur er algjört bananahýði. Á pappír eigum við að rústa þessu en KA-menn hafa sýnt það í vetur að þeir eru engin lömb að leika við. Stóra spurninginn er hvernig FH-ingar mæta til leiks. Eftir hroðalega svekkjandi tap fyrir norðan hljóta okkar menn að mæta bandbrjálaðir til leiks og klára leikinn sannfærandi. Við verðum með þeim til að fagna þeim sigri þegar hann kemur, enda erum við FH. KOMA SVO!

– Ingimar Bjarni