Frábær seinni hálfleikur strákanna okkar skilaði stórsigri á liði Stjörnunnar í Mýrinni í kvöld. Lokatölur voru 20-28, FH-liðinu í vil, sem var ekkert minna en það átti skilið.

Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik. FH-ingar skoruðu fyrstu tvö mörkin, en eftir það var jafnt á öllum tölum. Aðeins einu sinni leiddu bláklæddir heimamenn, í stöðunni 6-5, en annars voru okkar menn með frumkvæðið.

Ási skoraði 8 mörk í kvöld. Bara þessi venjulegi dagur á skrifstofunni hjá Fógetanum. / Mynd: Jói Long

FH-liðið varð fyrir áfalli á 21. mínútu leiksins, en þá var Jakob Martin Ásgeirsson rekinn af velli með rautt spjald. Fékk hann það fyrir brot á Garðari Sigurjónssyni, línumanni Stjörnunnar, sem kominn var einn í gegn. Full harður dómur að margra mati. Synd, því Jakob hafði byrjað leikinn afar vel, þá sérstaklega varnarlega. En, áfram gakk. Inn í hornið kom hinn ungi Hlynur Jóhannsson, sem leysti hornastöðuna það sem eftir lifði leiks með stakri prýði. Maður kemur í manns stað, sem þar áður kom í stað annars manns – okkar fyrsti hornamaður, Arnar Freyr Ársælsson, sat jú á pöllunum í leik kvöldsins, þar sem hann er meiddur.

Líkt og við vitum er Freysi ekki eini lykilmaður FH sem er fjarri góðu gamni þessa dagana, en sú staðreynd er það sem gerir seinni hálfleikinn, og það hvernig hann spilaðist, enn merkilegri. Það var ekki að sjá, hvort liðið á vellinum væri án fimm lykilmanna (að mér telst til). Við gefum Stjörnunni það, að þeir sakna Ara Magnúsar Þorgeirssonar gríðarlega í hægri skyttunni. Meiðsli hans eru liðinu erfið. En þar fyrir utan tefldu þeir fram sínum helstu kanónum – Agli Magg, Aroni Degi, Sveinbirni Péturs í markinu, Leó Snæ í horninu.

Seinni hálfleikurinn byrjaði frábærlega fyrir FH-liðið, en strákarnir okkar skoruðu fyrstu 3 mörk hans og náðu þar með góðri fjarlægð frá Stjörnuliðinu. Köttur úti í Mýrinni. Eftir þetta var aldrei spurning hvernig leikar myndu enda. Hvolpasveitin okkar spilaði frábæran varnarleik, sallaði mörkum á heimamenn og hreinlega pakkaði þeim saman. Walk in the Park-town.

Bjarni Ófeigur var afskaplega góður í kvöld / Mynd: Jói Long

Ásbjörn Friðriksson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson fóru fyrir verulega góðu FH-liði í kvöld, en þeir voru markahæstir með 8 og 7 mörk. Ágúst Birgisson og Einar Örn Sindrason voru báðir með fullkomna nýtingu sóknarlega og þannig 3 mörk hver, og þá var Ágúst afar mikilvægur varnarlega. Hjálpaði hann til við að sjá til þess, að helsta skytta Garðbæinga átti afleitan dag. Í rammanum stóð Kristófer Fannar Guðmundsson vaktina afar vel, en hann varði 14 skot að þessu sinni. Gerði hann skyttunni fræknu sömuleiðis lífið leitt.

Með þessum góða sigri komu strákarnir sér í 3. sæti deildarinnar, og eru nú með jafnmörg stig og lið Vals í 2. sæti, sem þó á leik til góða. Næstur á dagskrá er leikur liðsins gegn Aftureldingu í 8. liða úrslitum Coca-Cola bikarsins, en hann verður leikinn í Mosfellsbæ þann 19. febrúar. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 8/2, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 7, Ágúst Birgisson 3, Einar Örn Sindrason 3, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Hlynur Jóhannsson 2, Eyþór Örn Ólafsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Kristófer Fannar Guðmundsson 14/1.