Fyrsti heimaleikur strákanna okkar á þessu ári fer fram í kvöld, en þá kemur sterkt lið ÍR-inga í heimsókn í Krikann. Mögulega gæti verið um upphitun fyrir bikarúrslitahelgina að ræða, en liðin tryggðu sér bæði sæti í Final Four í vikunni. Hvort að þau mætast þar á eftir að koma í ljós – það eina sem við vitum fyrir víst, er að í kvöld á sér stað hörkurimma þeirra á milli.

Breiðhyltingar sitja eins og stendur í 8. sæti deildarinnar, því síðasta sem tryggir liðum sæti í úrslitakeppninni í vor, og eru jafnir Stjörnunni og KA að stigum. Gæti staða liðsins án nokkurs vafa verið betri, hefði heppnin verið með þeim oftar og hópurinn sjaldnar plagaður af meiðslum. Það er þó allt að færast í rétt horf. Sem dæmi virðist Bergvin Þór Gíslason, skyttan frækna að norðan, vera að snúa aftur eftir meiðsli, en hann hefur aðeins leikið 6 deildarleiki á tímabilinu. Sá átti fína innkomu í bikarleik liðsins í Eyjum á þriðjudag, og skoraði þá 5 mörk. Það veit á vandræði fyrir andstæðinginn.

Raunar var bikarsigur ÍR-inga í Eyjum ansi magnaður fyrir ýmsar sakir. Eitt er það, að sækja sigur á einn erfiðasta útivöll landsins. Annað er að gera það án síns allra besta markvarðar, en Stephen Nielsen var fjarri góðu gamni á sínum gamla heimavelli. Þá var Björgvin Hólmgeirsson, aðalskytta Breiðhyltinga, rólegur í Eyjum með aðeins 3 mörk skoruð. Aðrir tóku við keflinu – Pétur Árni Hauksson átti frábæran leik í hægri skyttunni með 10 mörk, og þá sýndi Sturla Ásgeirsson að hann er ekki dauður úr öllum æðum, en hann bætti við 9 mörkum.

Hvort Stephen verði með í Krikanum í kvöld er ekki gott að segja, en Morgunblaðið greinir frá því í dag að Sebastian Alexandersson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar og fyrrum landsliðsmarkvörður, hafi fengið félagaskipti yfir til ÍR. Er það víst ekki ósennilegt, að hann verði í leikmannahópi ÍR-inga í kvöld. En, eins og Breiðhyltingar sýndu í Eyjum á þriðjudag, þá skiptir ekki endilega máli hver stendur á milli stanganna í Krikanum í kvöld. Þeir verða erfiðir við að etja, sama hvað.

Það er alltaf hægt að treysta á baráttu þegar vörn FH-liðsins er annars vegar / Mynd: Jói Long

Við FH-ingar fengum að kynnast því í nóvember síðastliðnum, en þá lönduðum við sigri í Austurberginu eftir gríðarlega jafnan og spennandi leik. Lokatölur voru 26-28 FH í vil, eftir að við höfðum leitt með einu marki í hálfleik. Sá leikur var einn þeirra þar sem Björgvin Hólmgeirsson var hreinlega óstöðvandi, en hann var með 10 mörk skoruð það kvöldið. Ofboðslega góður. Blessunarlega áttum við á hinum endanum einn Ásbjörn Friðriksson, sem skoraði 9 stykki. Þá áttu okkar menn á hægri vængnum, þeir Einar Rafn Eiðsson og Birgir Már Birgisson, báðir flottan leik með 6 mörk skoruð hver.

Ég tala um það hér áðan að ÍR-ingar hafi lent í meiðslaveseni, en hvað verður þá sagt um okkar menn? FH-ingar hafa leikið án margra lykilmanna í byrjun árs, eins og víðfrægt er orðið. Vegna meiðsla, leikbanns og bikar-bindinga hefur FH-liðið mætt ,,laskað“ til leiks í verkefni ársins til þessa. En ekki hefur það litið þannig út.

Í fyrsta leik ársins, gegn Gróttu, mátti búast við sigri hvernig sem FH-liðið væri svosem skipað – með fullri virðingu fyrir Seltirningum, slíkt hefur gengi þeirra einfaldlega verið. Á móti Garðbæingum sýndu FH-ingar síðan frábæra frammistöðu, þar sem stjarna þeirra sem tækifærið fengu skein skært, auk þess sem lykilmenn eins og Bjarni Ófeigur stigu upp svo um munaði. Einhverjir voru e.t.v. smeykir fyrir þann leik (ég og margir viðmælendur mínir, í það minnsta), en það reyndist vera að ástæðulausu.

En þá vaknaði spurningin – hvenær yrðum við þandir út að þolmörkum? Næsti andstæðingur, fullskipað lið Aftureldingar á heimavelli í Mosó, yrði væntanlega ofjarl okkar? Ekki síst í ljósi þess, að Leonharð og Jón Bjarni gátu hvorugur verið með FH-liðinu, þar sem þeir höfðu báðir leikið bikarleiki með öðrum liðum.

Aldeilis ekki.

,,Laskað“ lið FH jarðaði sterka Mosfellinga í byrjun leiks. Það er ástæðulaust að draga nokkuð úr því. Strákarnir okkar spiluðu sterkan varnarleik, markvarslan var afar góð og þá réði aginn ríkjum í sóknarleik liðsins. Allt var gert upp á Krikamátann. Upp á 10.

Það munaði sannarlega um það, að Arnar Freyr og Birgir Már sneru báðir á völlinn á ný eftir meiðsli í Varmá. Birgir Már lét vel til sín taka í markaskorun, og þá er mikilvægi Freysa í varnarleiknum ótvírætt, auk þess sem hann klárar færi sín ávallt af kostgæfni. Það eru frábær tíðindi að þeir skuli vera orðnir leikfærir á ný.

En stóru tíðindin í þessu fyrir mér, er þessi ,,falda breidd“ okkar FH-inga, sem sérfræðingarnir í Handkastinu töluðu um eftir leikinn. Hún hafði gert vart við sig í leikjunum gegn Gróttu og Stjörnunni, en frumsýningin var í Mosó. Hitt var bara forsýning, fyrir þá sem nenntu út á Nes og mættu í Mýrina. Mikið hefur verið rætt og ritað um skort á breidd í FH-liðinu, en annað hefur komið á daginn. Þarna stigu upp strákar, í vörn og sókn, sem voru tilbúnir fyrir stóra sviðið. Rasskelling í beinni á RÚV (í það minnsta til að byrja með).

Benedikt Elvar er einn þeirra, sem lætur sig bara vaða / Mynd: Jói Long

Davíð Stefán Reynisson, sem gefur skyttum andstæðinganna engan grið. Einar Örn Sindrason, með sitt góða spil og allan þennan leikskilning. Jakob Martin Ásgeirsson, sem brennir bara ekki af skotum. Benedikt Elvar Skarphéðinsson, með alla sína áræðni. Eyþór Örn Ólafsson, Hlynur Jóhannsson, Veigar Snær Sigurðsson – allir eiga þessir guttar það sameiginlegt, að vera tilbúnir að láta til sín taka þrátt fyrir ungan aldur. Þeir fá traust, og borga það til baka. Svellkaldir.

Þegar Mosfellingar gerðu sitt áhlaup og jöfnuðu metin, höfðum við síðan taugarnar sem þurfti til að klára dæmið. Það er ekki sjálfsagt, ekki síst þegar um marga leikmenn eru að ræða sem ekki hafa reynslu af leikjum sem þessum – þegar svo mikið er undir. Þjálfarar og leikmenn eiga mikið hrós skilið fyrir það, hvernig þeir kláruðu þennan leik. Hvernig þeir komu okkur í Höllina.

Það eru forréttindi, að fá að halda með liði sem hefur þetta mikið hjarta. Njótum þess. / Mynd: Jói Long

En nóg um Höllina í bili. Bikarhelgin er í órafjarlægð, og skiptir litlu máli næstu vikuna. Fyrst er það ÍR, svo er það Selfoss. Alvöru prófraunir fyrir alvöru lið, sem hefur sýnt að það á stuðning þinn svo sannarlega skilið.

Mætum í Mekka í kvöld, og sýnum strákunum okkar LUV í verki. Hvetjum þá til dáða í þessu krefjandi verkefni.

Við erum FH!
– Árni Freyr