Ingvar Hallsteinsson lést á heimili sínu í Riverbank í Kaliforníu 3. mars síðastliðinn, 83 ára að aldri. Eftirlifandi kona hans er Dale Edith Herschbach, fædd 1941. Börn þeirra eru Halla Inga, f. 1969, Ingvar Robert, f. 1971, Andy Thomas, f. 1972 og Markus Edward, f. 1973. Systkini Ingvars eru Örn, f. 1941, Sylvía, f. 1945 og Geir, f. 1946.

Ingvar fæddist í Hafnarfirði 6. apríl 1935 og var elstur barna hjónanna Hallsteins Hinrikssonar íþróttakennara og Ingibjargar Árnadóttur húsfreyju. Hann byrjaði snemma að æfa íþróttir hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar (FH), enda faðirinn mikill íþróttafrömuður og aðalstofnandi félagsins. Í fyrstu varð handknattleikur fyrir valinu en síðan snérist áhuginn meira að frjálsum íþróttum. Hann náði fljótt góðum árangri í þeirri íþróttagrein, þótti einkar fjölhæfur frjálsíþróttamaður og setti fjölda hafnfirzkra meta í greinum frjálsra íþrótta.

Á árunum 1952-67 var Ingvar einn fremsti íþróttamaður FH og landsins. Hann kenndi frjálsar íþróttir og var aðaldriffjöður frjálsíþrótta í félaginu frá 1952 til 1959. Aðalgrein hans var spjótkast og hann kastaði spjótinu lengst 66.15 metra í San Luis Obispo í Kaliforníu árið 1960, þar sem hann stundaði nám og keppti fyrir háskólaliðið. Hann varð Íslandsmeistari í spjótkasti árið 1961 og keppti í spjótkasti með landsliðinu í frjálsum íþróttum í Osló sama ár.

Ingvar sat í aðalstjórn Fimleikafélags Hafnarfjarðar í fimm ár, árin 1954 til 1958, og var varamaður í stjórn árin 1967 og 1968. Stjórn FH sæmdi hann fjölda heiðursviðurkenninga félagsins, síðast árið 2017 þegar hann kom ásamt tveimur börnum sínum í heimsókn til landsins. Þá var hann heiðraður fyrir keppni og mikilvægt starf fyrir félagið, sérstaklega á fyrstu árum þess. Einstaklega ánægjulegt var fyrir fjölskyldu og gamla vini Ingvars að hitta hann loks hér á landi, eftir 33 ára búsetu í Bandaríkjunum.

Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á frjálsíþróttum og íþróttum almennt, og fylgdist vel með okkar bestu keppendum í frjálsum íþróttum á erlendum vettvangi.