Í kvöld munu ríkjandi bikarmeistarar FH taka á móti Aftureldingu í Kaplakrika og hefja lokaatlögu að deildarmeistaratitlinum. Það er að nógu að keppa og þó að einn bikar sé í húsi hef ég enga trú á að menn muni eitthvað slaka á, þvert á móti verður sá stóri í bikarskápnum áminning fyrir leikmenn og stuðningsmenn. Áminning á hvað það er hrikalega gaman að vinna stórt, áminning á hvað er hægt þegar allir leggja sig fram. Það eru ekki nema fjórir leikir eftir í deildinni og allt galopið, handan við hornið er svo úrslitakeppnin sem FH hefur tekið silfrið í tvö ár í röð. Það er einfaldlega handboltaveisla fram undan í Kaplakrika.

Final Four helgin – Uppgjör

Leikur FH og ÍR átti að hefjast klukkan 20:15 á föstudagskvöld. Skipuleggjendur höfðu því miður ekki gert ráð fyrir að leikurinn á undan færi í framlengingu og svo var eitthvað dómarabíó. Því komu stuðningsmenn FH og ÍR að læstum dyrum þegar þeir mættu tímanlega. Rúmlega 500 FH- og ÍR-ingar biðu pirraðir eftir að komast inn, ætli þetta kenni mönnum að vera ekki að mæta á réttum tíma?

Það kom ekki að sök þegar inn í hlýjuna var komið, það var rífandi stemning báðum megin og leikar hófust að endingu. ÍR-ingar byrjuðu eilítið betur og voru einu eða tveimur mörkum yfir fyrstu mínúturnar.

Ef þið horfið aftur á leiki helgarinnar eða skoðið umfjöllunina um þá, er eitt orð sem er kemur upp aftur og aftur: Agi. Þó ÍR-ingarnir kæmust yfir þá var aldrei eins og liðið okkar stressaðist. Þeir spiluðu sína vörn, spiluðu sína sókn, biðu eftir að góð glufa opnaðist á vörn ÍR-inga og létu Breiðholtsliðið hafa fyrir hverju einasta marki. Liðin voru nokkuð jöfn í fyrri hálfleik, þangað til að staðan var 11-11 og aðeins ein og hálf mínúta til hálfleiks. Þá skoraði Einar nokkur Rafn fyrsta mark sitt fyrir FH í nokkrar vikur og maður helgarinnar, Birkir Fannar Bragason varði ótímabært skot ÍR-inga hinum megin. Jóhann Birgir kláraði hálfleikinn með marki og var FH þá allt í einu tveimur mörkum yfir.

Mikið er gott að sjá þig aftur á velli, Einar Rafn! / Mynd: Jói Long

Í seinni hálfleik hafði maður alltaf fína tilfinningu fyrir leiknum. FH var alltaf einu skrefi á undan. Ekki taka neitt af ÍR, þeir börðust eins og ljón til að halda sér í leiknum. Það var samt ekki nema tvisvar sem fór virkilega um FH-inga í stúkunni.

Fyrra skiptið var í stöðunni 19-19, þegar Jóhann Birgir fékk dæmdan á sig ruðning og ÍR átti séns á að koma sér yfir í fyrsta sinn í ansi langan tíma, þegar ekki nema tíu mínútur voru eftir. Pétur Árni sótti inn yfir punktalínuna og fór upp í klassískt skyttuskot, Jóhann Birgir reis eins og fönix og varði skotið en Þrándur Gíslason náði frákastinu, eitt af fáum sem FH náði ekki um helgina. Þrándur stökk inn í teiginn og ætlaði að vippa yfir Birki, sem hélt nú ekki og varði skotið.

ÍR náði að halda í skottið á okkar mönnum og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar mínúta var eftir. Okkar menn fóru í sókn, leyfðu boltanum að ganga og tóku leikhlé þegar hálf mínúta var eftir. Skilaboðin voru að tefja og ná skoti. Fyrst reyndi Bjarni Ófeigur að rúgbýtækla sig framhjá vörn ÍR-inga og náði í aukakast þegar tvær sendingar voru eftir. Þær dugðu ekki til að skapa alvöru færi en Einar Rafn skaut og Stephen Nielsen varði nokkuð auðveldlega.

Níu sekúndur: ÍR með boltann. 7 sekúndur: allir FH-ingar komnir til baka. 6 sekúndur: Pétur Árni sér glufu milli Ása og Freysa. 5 sekúndur: Pétur Árni hleypur í átt að glufunni, Ási þarf að velja milli þess að loka henni eða dekka hornamann ÍR, hann velur fyrrnefnda kostinn. 4 sekúndur: Pétur hleypur beint á Ása, lítur ekki einu sinni í hornið. 3 sekúndur: ruðningur dæmdur. 0 sekúndur: leikklukkan glymur, FH er á leið í bikarúrslit á móti Val!

Strákarnir gátu fagnað í leikslok, en vissu þó fullvel að verkið væri aðeins hálfnað / Mynd: Jói Long

Úrslitaleikurinn – Valur

„ÞEIR ERU STRESSAÐIR! VIÐ HUGSUM BARA UM NÆSTA HELVÍTIS ATVIK Í ÞESSUM LEIK!“

-Ási í klefanum rétt fyrir leik, í beinni á RÚV.

Valur. Það eru búnir að vera ansi margir leikir við þetta lið síðustu ár. Það eru sérstaklega tveir sem svíða í minningunni, undanúrslitaleikurinn í bikarnum fyrir tveimur árum og svo oddaleikurinn um titilinn í Krikanum sama ár. Valsarar hafa síður en svo veikst milli ára, það er komið ansi kunnulegt andlit í markið hjá þeim í vetur og hann átti stórleik, eins og allir FH-ingar í þessum leik.

Það eru nokkrir punktar sem er vert að minnast á eftir þennan leik. Í fyrsta lagi, þá komst Valur aldrei yfir í leiknum. Í öðru lagi, FH var með átta fráköst á móti þremur hjá Val, Hlíðarendapiltar náðu ekki einu sinni í leiknum að grípa frákast þegar þeir voru í sókn. Í þriðja lagi, báðir markmenn voru með um 40% markvörslu, FH-ingar voru með 100% nýtingu í vítum og af línu.

En hvernig þróaðist leikurinn? FH komst yfir í byrjun og sleppti aldrei takinu. Það var ekki að sjá að þeir hefðu spilað heilan leik innan við sólarhring áður. Í fyrri hálfleik var FH um einu til þremur mörkum yfir. Það var ekki mikið skorað, þetta var leikur tveggja varnarliða, og þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þá voru liðin með 10 mörk hvor.

En FH-ingar gerðu það sama og daginn áður í lok hálfleiks: skoruðu tvö í röð. Svo skoruðu þeir tvö þau fyrstu í seinni hálfleik og voru komnir með fjögurra marka forskot. Seinni hálfleikur var ögn opnari en fyrri, en Valur náði ekki að jafna, sama hvað þeir reyndu. Okkar menn leystu bara þau vandamál sem vörn Vals skapaði aðeins betur en Valsarar leystu vörn FH-inga.

Það er samt bara þannig að þegar munurinn er ekki meiri en þrjú mörk þegar tvær mínútur eru eftir, á móti Val og í bikarúrslitum, þá er andrúmsloftið spennuþrungið. Bjarni Ófeigur fékk dæmdar á sig tvær mínútur þegar akkúrat tvær mínútur voru eftir, fyrir að sleppa boltanum ekki rétt þegar Valur átti boltann. Nú voru okkar menn einum færri, Valsarar komnir í maður á mann vörn. Vignir Stefánsson skoraði flott mark fyrir Val, ein og hálf mínúta eftir og munurinn tvö mörk.

Það fór um margan í stúku og heima í stofu, þegar Danni varði skot Ása og Valur brunaði í sókn. Magnús Óli hótaði skoti á punktalínunni en sá að Sveinn Aron var frír í horninu hinum megin og sendi boltann þvert yfir teiginn. Ási tók tvö góð skref, þrengdi færið en Sveinn Aron stökk inn og Birki Fannar varði! Þetta var augnablikið þar sem leikurinn vannst, Ási skoraði tvö mörk í viðbót, annað af vítapunktinum eftir einstaklega aulalegt brot Orra Freys á Einari Rafni.

FH, bikarmeistarar í sjötta sinn, eftir 25 ára bið. Svo einfalt, svo afskaplega sætt.

Strákarnir okkar – bikarmeistarar 2019! / Mynd: Jói Long

Punktar eftir leikina

Birkir Fannar var valinn maður helgarinnar. En ef Arnar Freyr eða Ási hefðu verið valdir, hefði enginn sett spurningamerki við það. Þegar þrír byrjunarliðsmenn eiga þannig helgi í bikarnum, veit það á mjög gott. Freysi og Birkir voru að eiga sína tvo bestu leiki fyrir FH.

Talandi um Birki, það er ekki hægt að hrósa honum nóg fyrir þessa helgi. Það er ekki bara fjöldi skota sem hann varði, heldur að hann var að verja aftur og aftur á algjörum lykilaugnablikum, oftar en ekki dauðafæri.

Agi, skipulag, klókindi. Þetta eru einkunnarorð liðsins okkar í dag. Að geta farið inn í þessa helgi og haldið skipulagi og spilað sinn leik sama hvað gengur á. Þetta er svo miklu erfiðara en það hljómar. Þetta lið er líka hokið af reynslu, sem á eftir að reynast dýrmætt í framhaldinu. Það var áberandi þegar maður horfði aftur á leikina (sem ég hvet alla til að gera, það er klárlega ekkert jafn skemmtilegt í sjónvarpinu eða á Netflix) hversu góð dómgreind leikmanna var þegar pressan var sem mest. Nánast alltaf þegar hönd dómarans kom upp kláruðu þeir með marki.

Það er geggjað að Dóri nái að kveðja með allavega einum stórum titli, eftir þessa helgi finnst manni alls ekkert ólíklegt að hann kveðji með tveim. Ef liðið heldur áfram að spila svona eru strákunum allir vegir færir.

Endurkoma Einars Rafns var kærkomin og dýrmæt. Maðurinn er svo hrikalega öflugur og klókur, það munaði um að hann kæmi inn og margfaldaði ógnina að utan.

Sigursteinn Arndal tekur við mjög góðu búi af Dóra, spennandi að sjá hvað hann gerir með þennan hóp næstu ár.

Að lokum. Stuðningsmenn: djöfull voruð þið flottir. Allir frá trommusveitinni og upp í rjáfur. Geymið fallegu FH-bolina sem var dreift fyrir leikina, liðið mun þurfa þennan hvíta vegg aftur áður en tímabilið klárast.

Birkir Fannar átti stórkostlega úrslitahelgi, og var valinn besti leikmaður hennar / Mynd: Jói Long

Næsti leikur – Afturelding í Kaplakrika

Það eru tveir bikarar eftir. Atlagan að þeim fyrri hefst í kvöld þegar Einar Andri kemur í heimsókn með sína menn og freistar þess að sigra okkar menn í fyrsta sinn síðan 2016. Liðin hafa leikið 15 sinnum síðan Mosfellingar unnu okkar menn síðast. Ansi margir munu óttast að smá þynnka verði í FH liðinu og að Afturelding muni ganga á lagið – þetta verður í það minnsta klárlega hörkuleikur.

Afturelding er búið að vera skrýtið lið síðustu ár. Á pappír eru þeir hrikalega sterkir en það hefur bara hvorki gengið né rekið hjá þeim á þessu tímabili. Þeir eru í fimmta sæti, aðeins stigi fyrir ofan ÍBV en heilum sex á eftir FH í fjórða. Liðið hefur tapað sex leikjum í vetur, sumum ansi grátlega eins og gegn ÍBV í þarsíðustu umferð. Þeirra markmið úr þessu hlýtur að vera að halda fimmta sætinu og koma svo að krafti inn í úrslitakeppnina.

Stóra spurningin fyrir þennan leik er hvernig okkar menn mæta í hann. Eftir stóran sigur er mannlegt að það komi smá spennufall. Ég hef samt grun um að æfingar þessarar viku hafi síður en svo verið auðveldar, Halldór hefur væntanlega keyrt liðið í gang fyrir komandi átök. Það eru fjórir leikir eftir í deildinni, FH-ingar eru ekki nema þremur stigum frá toppsætinu. Þetta er hægt, þó okkar menn séu ekki með örlög sín í eigin höndum.

Það eina sem er að gera er að vinna þessa fjóra leiki og sú barátta hefst í kvöld. Við hvetjum auðvitað alla stuðningsmenn til að fjölmenna á pallana og hylla bikarmeistarana, svo ekki sé talað um að byrja að hita upp fyrir komandi úrslitakeppni.

KOMA SVO!
VIÐ ERUM FH!!!
-Ingimar Bjarni.