Þetta er svo vel hægt. Það sýndu þær okkur, stelpurnar í gær.

Þrátt fyrir að vera ekki endilega upp á sitt allra besta höfðu FH-stelpur í fullu tré við sterkt lið HK í Digranesi. Leikurinn var jafn lengst af í fyrri hálfleik, en þegar líða tók á hálfleikinn fékk heimaliðið hraðaupphlaup í auknum mæli, sem skilaði sér í þriggja marka forystu þegar honum lauk. Staðan í hálfleik 15-12, HK í vil.

Embla stýrði leiknum eins og herforingi og skoraði þar að auki 4 mörk. / Mynd: Brynja T.

Heimaliðið fór vel af stað í síðari hálfleik og náði fljótlega að auka muninn á liðunum í 5 mörk. Einhver lið hefðu þar lagt upp laupana, en ekki stelpurnar okkar. Þær bitu á jaxlinn, spiluðu varnarleikinn vel og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar korter var eftir af leiknum. Þá, í stöðunni 21-20, ákvað Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK, að taka leikhlé enda áhlaup FH-liðsins í fullum gangi.

Þetta leikhlé breytti hlutunum greinilega til hins betra fyrir lið HK, því síðasta korterið unnu Kópavogsstelpur með tveggja marka mun. Lokatölur 27-24, HK í vil, eftir spennandi og skemmtilegan leik.

Fanney Þóra varð markahæst stelpnanna okkar í gær með 7 mörk, en hún spilaði einnig varnarleikinn afar vel og gekk af hörku fram gegn sterkum skyttum HK-liðsins. Aníta átti frábæran leik á línunni með 6 mörk skoruð, en Embla og Freydís fundu hana vel í leiknum og þakkaði hún pent fyrir sig. Embla stýrði leiknum einmitt vel, að venju, og var þar að auki áræðin og skoraði 4 mörk sjálf.

Aníta bakaði eintóm vandræði fyrir lið HK á línunni. Liðsfélagar fundu hana vel, og þá er ekki að spyrja að leikslokum. / Mynd: Brynja T.

Eins og tölurnar gefa til kynna þá stóðu stelpurnar okkar jafnfætis liði HK í gær. Seinni hálfleikurinn endar t.a.m. jafn. Aðeins færri tapaðir boltar hefðu þýtt aðeins færri hraðaupphlaup, og hver veit þá hvernig útkoman hefði orðið? Sömuleiðis var uppstilltur sóknarleikur liðsins góður að mestu, og varnarlega héldu stelpurnar vel velli.

Það vantar sumsé sáralítið upp á. Því er ekki tilefni til neins annars, en að líta til leiksins á föstudag með bjartsýni að leiðarljósi. Stelpurnar spiluðu vel en eiga líka nóg inni. Það er innistæða fyrir þessari bjartsýni – ég tala nú ekki um, fyrst við erum á heimavelli.

Hvað varðar heimavöllinn – besta mæting vetrarins hlýtur að nást á föstudag. Það bara getur ekki annað verið. Um er að ræða stærsta leik tímabilsins til þessa. Ef við mætum almennilega, styðjum við stelpurnar okkar og vinnum þennan leik erum við til alls vís í þeim næsta þar á eftir. Hugsa sér kraftinn sem því myndi fylgja. En, ef við mætum almennilega, styðjum við stelpurnar okkar og þetta fer ekki eins og við óskum okkur þá allavega…

…nei, annars. Lestu smáa letrið á matseðlinum. Í Krikanum er ekkert nema sætur sigur á boðstólum.

Nú gefum við í, innan vallar sem utan. Nú leggjum við allt okkar á vogarskálarnar, til að stelpurnar okkar megi snúa aftur í Digranes á mánudag og heyja þar oddaleik. Það yrði saga til þarnæsta bæjar, og þá fyrst er pressan á andstæðingi okkar orðin þung.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 7, Aníta Theodórsdóttir 6, Britney Cots 4, Embla Jónsdóttir 4, Freydís Jara Þórsdóttir 1, Ragnheiður Tómasdóttir 1, Sylvía Björt Blöndal 1.