Nú er skammt stórra höggva á milli. Aftur á FH-liðið heimaleik, en annað kvöld sækja lærisveinar Geirs Sveinssonar í Akureyri okkar menn heim. Mikilvægi leiksins er ótvírætt fyrir bæði lið. Norðanmenn verða að vinna ætli þeir sér að halda sæti sínu í deildinni, og þá vilja strákarnir okkar fyrir alla muni tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni sem framundan er.

Strákarnir sýndu ekki sinn besta leik gegn Val á sunnudag, og þeir vita það best sjálfir. Þá var fyrri leikurinn gegn Akureyri í vetur, norðan heiða, einnig langt undir þeim staðli sem FH-liðið hefur sett sér á þessu tímabili og þeim sem á undan hafa farið. Þeir hafa því margt að sanna, fyrir utan það að þeir ætli sér heimaleikjaréttinn.

Í umræddum fyrri leik, sem fram fór þann 25. nóvember síðastliðinn, virtust strákarnir okkar ætla að hafa þetta lengi vel. FH-ingar leiddu í hálfleik með tveimur mörkum, og voru svo þremur mörkum yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Við sem fylgst höfum með strákunum undanfarin ár vitum, að þeirri stöðu glopra þeir ekki niður svo glatt. En þarna gerðist það. Akureyringar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp, og þegar 10 mínútur voru eftir náðu þeir forystunni. Mest varð forysta Norðanmanna 3 mörk, en strákarnir okkar náðu þó að klóra í bakkann. Lokatölur voru 27-26 Akureyri í vil. Óvænt óánægja í Höllinni.

Einar Rafn var yfirburðamaður á vellinum þegar liðin mættust síðast / Mynd: Jói Long

Við verðum að mæta til leiks á fullu gasi – bæði á velli og í stúku. Lið Akureyrar hefur gæði, og það hefur baráttuvilja. Norðanmenn sjá ljósið í enda ganganna, Framarar eru aðeins einu stigi fyrir ofan þá og með góðum lokaleikjum geta þeir haldið sér uppi. Þetta ætla þeir sér, og það gerir þá að stórhættulegum andstæðingi.

Þeir hafa góða markmenn í þeim Marius Aleksejev og Arnari Þór Fylkissyni. Báðir geta dottið í gírinn og valdið skaða.

Þeir elska að standa varnarleik, eins og allir sem rætur eiga að rekja til Eyjafjarðar (eða flestir þeir sem borða KEA skyr að staðaldri, hvort heldur sem er eða bæði).

Þeir hafa gæði í sókninni. Til að mynda í vinstra horninu, þar sem Ihor Kopyshynskyi stendur vaktina og í hægri skyttunni, þar sem Hafþór Vignisson (sem alltaf velur rétt) leikur lausum hala.

Við þurfum að mæta þeim, með öllum okkar gæðum. Öllum okkar styrk. Allri okkar baráttu. Ekki bara af því að við viljum þennan heimaleikjarétt, heldur líka af því að við viljum ná skriði inn í úrslitakeppnina sjálfa.

Skriðþunginn skiptir nefnilega svo ofboðslega miklu máli, þegar hingað er komið. Það er hann, sem gerir það að verkum að liðið í 8. sæti gæti allt eins orðið Íslandsmeistari eins og deildarmeistarinn sjálfur. Við fundum fyrir því á eigin skinni vorið 2017.

Strákarnir gera sitt. Þeir stoppa upp í götin í varnarleiknum, sem svo greinileg voru á sunnudag. Þeir velja betur í sókninni. Þeir berjast af hörku sem fyrr. Við skulum ekki skorast undan, heldur gera okkar. Bætum í á lokasprettinum, og förum á fullu inn í úrslitakeppnina.

Við erum FH!
– Árni Freyr