Hátíð er gengin í garð. Þið vitið hvað það þýðir, og hverju það fylgir. Ein veislan fylgir annarri. Kræsingar á boðstólum sem engu eru líkar. Þetta er sá tími, þar sem við hittum okkar kærustu fyrir og gleðjumst með þeim. Jafnvel á bogadregnum helgistað í Kaplakrika, sem einhverjir kjósa að kalla Mekka.

Og já, svo eru líka páskar. Gleðilega páska, kæru FH-ingar!

Ríðum á vaðið með risaslag

Hátíðin gæti vart farið af stað með meiri hvelli. Einvígið, sem framundan er, er án nokkurs vafa mest spennandi þeirra sem boðið er upp á í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins. Ríkjandi bikarmeistarar gegn þeim fyrrverandi. Ríkjandi Íslandsmeistarar gegn þeim andstæðingi, sem liggja mátti í valnum að loknum slagnum um nafnbótina. Þau gerast einfaldlega ekki stærri en þetta.

Hvorugt liðið lauk keppni sérlega nærri toppsætinu í deild, en bæði gætu þau allt eins hirt allt heila klabbið. Hvort þeirra tekur slaginn?

Andstæðingur okkar í ÍBV er sá hættulegasti sem nokkur hefði getað óskað sér (eða ekki) í þessari úrslitakeppni. Það er því ef til vill ekkert verra, að byrja á þeim. Um er að ræða lið, sem var byggt til að sigra – ekki enda í 5. sæti. Eftir stórkostlegt síðasta tímabil, þar sem Eyjamenn tóku allar dollurnar með sér í Herjólf, voru þeir ekki á þeim buxunum að hætta að vinna. Það er skemmtilegur ávani. Mikilvægir liðsmenn meistaraliðs þeirra hurfu þó vissulega á braut. Róbert Aron Hostert og Agnar Smári Jónsson fljúga nú vængjum þöndum á Hlíðarenda, og þá eltu markverðir liðsins draumana um atvinnumennsku til Hamborgar og upp í Breiðholt.

Ekki voru það þó aukvisar, sem fylltu í þeirra skörð. Fannar Þór Friðgeirsson, leikstjórnandinn klóki og kröftugi, valdi Eyjar framyfir heimahagana að lokinni atvinnumennsku, og þá ákvað skyttan öfluga Kristján Örn Kristjánsson (Donni) að taka sitt næsta skref á ferlinum í hvítu. Hákon Daði Styrmisson sneri aftur á heimaslóðir eftir stórgóð ár á Ásvöllum, og hefur farið með himinskautum eftir áramót. Einnig átti sér stað stór útskipting í brúnni – Arnar Pétursson lét af störfum að loknu meistaratímabilinu mikla, og tók Erlingur Richardsson við af honum ásamt Kristni Guðmundssyni. Fært þjálfarapar stýrir því skútunni, sem þekkir það að vinna til Íslandsmeistaratitils, eins og við FH-ingar fengum því miður að kenna á hér um árið.

Titilvörnin byrjaði ekki vel hjá Eyjamönnum, en með tímanum hefur útlitið sífellt orðið betra. Það tók tíma fyrir nýja leikmenn að spila sig inn í hjörtu alþýðunnar í Eyjum, en nú eru þeir kaldir karlar með saltan sjó í æðum sér. Lykilmenn eins og Sigurbergur Sveinsson og Theodór Sigurbjörnsson hafa þurft að eiga við meiðsli, en það varð aðeins til þess að liðið þjappaði sér saman. Nú færast Beggi, og mögulega Teddi, nær því að vera leikfærir að fullu, og þá er voðinn vís fyrir þann sem ekki mætir rétt inn stilltur í slaginn.

Það breytir svosem engu, hverjir spila fyrir ÍBV á laugardag og hve lengi. Þetta er úrslitakeppnin. Það mæta allir upp á sitt besta, því annað er ekki í boði.

Bikarmeistarar FH ætla sér að bæta öðrum í safnið / Mynd: Jói Long

Hið sama verður að eiga við um lið FH. Það verður að vera upp á sitt besta, sem það hefur ekki verið í aðdraganda úrslitakeppninnar – þ.e. eftir að bikarkeppnin vannst.

Að einhverju leyti þykir mér það skiljanlegt. 25 ára byrði var lyft af herðum félagsins, þegar bikarinn kom loks í hús. Bleika skýið, bikarþynnka, hvað sem við viljum kalla það – strákarnir hafa verið pínu ólíkir sjálfum sér eftir þessa stórkostlegu helgi.

Nú gefst tækifæri til að endurstilla. Ný keppni er framundan, og allt er undir. Öll eiga liðin tækifæri á, að landa þeim stærsta – og þá ekki síst þau tvö sem hér um ræðir, FH og ÍBV.

Mættu á völlinn!

Náum við, með skynsemi og aga að leiðarljósi, að vinna bug á ÍBV-vörninni frægu? Höldum við aftur af stórskyttunum Begga og Donna og skriðdrekanum Kára Kristjáni á línunni? Fáum við bikarhelgarmarkvörslu frá Birki og Kristófer (báðum Fannari)?

Líkurnar á öllu þessu magnast upp, þegar Krikinn er troðinn upp í rjáfur. Við sóttum þennan heimaleikjarétt stíft, og það ekki að ástæðulausu. Heima er best, og þegar FH-ingar styðja við bakið á sínu liði eru því allir vegir færir. Munið 9. mars síðastliðinn.

Þar fyrir utan, er úrslitakeppnin á heimavelli í Kaplakrika. Engu öðru húsi sæmir það jafnvel, að halda leiki sem þessa. Höfum þá því sem allra flesta. Þetta er svo ofboðslega gaman.

Kjötkompanísborgari eða kaffi og kruðerí með vinum og vandamönnum fyrir leik. Bestu sætin á bekkjunum í Mekka. Svo dýrðin ein, þetta dásamlega sport.

Megi föstudagurinn langi verða sem stystur, því eftir þessu getum við ekki beðið!

Við erum FH!
– Árni Freyr