FH-stelpur tóku í kvöld á móti Fram U í Kaplakrika í fyrstu umferð Grill 66 deildarinnar. Stelpurnar þurftu að sætta sig við tap í þessum fyrsta leik þar sem lokatölurnar urðu 22-30, Fram U í vil. Fram U mætti með gríðarlega sterkt lið til leiks og spiluðu leikinn vel og mátti sjá margar yngri landsliðsstelpur í þeirra hóp. Þar var markahæst Lena Margrét Valdimarsdóttir, sem var á eldi í kvöld og skoraði heil 13 mörk.

Markahæst hjá FH liðinu var hin ólseiga Fanney Þóra Þórsdóttir með 8 mörk, og þar á eftir kom hin unga og efnilega Emilía Ósk Steinarsdóttir með 6 mörk. Dröfn Haraldsdóttir, sem skrifaði undir hjá FH í dag, stóð í markinu í kvöld og stóð sig með prýði og varði 13 skot.

Dröfn Haraldsdóttir gekk til liðs við FH á nýjan leik í dag, og lék vel í kvöld / Mynd: Brynja T.

Leikurinn byrjaði skringilega þar sem Britney Cots fékk tveggja mínútna brottvísun á fyrsu mínútu og svo beint rautt spjald eftir sóknarbrot þegar 5 mínútur voru liðnar af leiknum, sem reyndist rándýrt fyrir liðið. Dómararnir virtust ætla að taka hart á brotum strax frá fyrstu sekúndu. Í byrjun leiks virtust allar stoppanir verðskulda tveggja mínútna brottvísun, og fengu þær hver á fætur annarri að setjast á bekkinn í tvær mínútur fyrir mismiklar sakir. Að leik loknum voru FH-stelpur með 8 brottvísanir og 1 rautt spjald á móti 4 brottvísunum hjá liði Fram U.

Þrátt fyrir tap má taka jákvæða punkta úr þessum leik, og eins er ýmislegt sem má betur fara. Mjög gaman var að sjá ungar og virkilega efnilegar stelpur vera að stíga upp og má þar sérstaklega nefna Emilíu Ósk Steinarsdóttur. Hún er aðeins 16 ára gömul og hefur spilað frábærlega á undirbúningstímabilinu. Hún skoraði 6 mörk í kvöld, og er það unun að sjá hana blómstra með sjálfstrausti og metnaði.  Þetta er nafn sem á að leggja á minnið.

Emilía Ósk sýndi hvað í henni bjó í kvöld. Spennandi verður að fylgjast með framþróun hennar í vetur. / Mynd: Brynja T.

Við erum með rosalega flottar stelpur í FH-liðinu sem við vitum að eiga miklu meira inni. Eins erum við með nýjan þjálfara með mikinn metnað, og verður virkilega gaman að fylgjast með þeim í vetur og sjá hvað í þeim býr. Mæli ég með að fólk verði duglegt að mæta á leiki hjá stelpunum í vetur og hvetja þær áfram!

Við erum FH!
– Kristín Þóra

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 8, Emilía Ósk Steinarsdóttir 6, Ragnheiður Tómasdóttir 4, Sylvía Björt Blöndal 3, Diljá Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 13, Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 1.