Stelpurnar okkar lönduðu fyrsta sigri sínum á tímabilinu í gær, er þær heimsóttu Val U á Hlíðarenda. Lokatölur voru 24-26, FH í vil, en í hálfleik leiddu stelpurnar okkar með þremur mörkum, 12-15.

Eins og tölurnar gefa til kynna var um nokkuð jafnan leik að ræða allt frá byrjun. Valskonur byrjuðu leikinn betur, en um miðjan fyrri hálfleik tóku stelpurnar okkar frumkvæðið, sem þær héldu svo allt til loka leiksins.

Framþróun FH-liðsins í leiknum var allt í allt góð. Varnarleikur þess fór batnandi eftir því sem leið á leikinn, og þá fækkaði mistökum sóknarlega einnig eftir því sem leið á. Munurinn á liðunum hefði í raun getað orðið nokkuð stærri, ef Valsliðið hefði ekki haft hina efnilegu Andreu Gunnlaugsdóttur á milli stanganna. Sú hreinlega lokaði búrinu á löngum köflum, og gerði liði Vals kleift að halda í við FH-liðið.

Ragga átti flottan leik á báðum endum vallarins / Mynd: Brynja T.

Mér finnst það segja sitthvað um stelpurnar okkar, að þær skyldu landa sigri í gær. Þrátt fyrir meiðsli, tvö rauð spjöld sem þær fengu á sig (Britney og Fanney báðar reknar út af með 3 x 2 mín.), og að Andrea í Valsmarkinu skyldi spila jafn vel og raun bar vitni, þá héldu þær út og kláruðu dæmið.

Það er ekki víst að þessi leikur hefði unnist í fyrra. En það gerðist nú, og það er sannarlega þroskamerki.

Markahæstar í FH-liðinu voru þær Ragnheiður Tómasdóttir og Sylvía Björt Blöndal, sem skoruðu 6 mörk hvor. Fóru þær fyrir liðinu í sitt hvorum hálfleiknum – Ragga skoraði 5 marka sinna í þeim fyrri, og Sylvía gerði öll sín í þeim síðari. Þá lék Ragga sérlega vel í bakverðinum á hinum enda vallarins – af festu, en snyrtilega þó. Eins og það gerist best.

Næsti leikur stelpnanna okkar er heimaleikur, en þann 6. október næstkomandi sækja Víkingar okkur heim. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

 Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 6, Sylvía Björt Blöndal 6, Britney Cots 4, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Aníta Theodórsdóttir 2, Arndís Sara Þórsdóttir 2, Emilía Ósk Steinarsdóttir 2, Andrea Valdimarsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 8, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3.