Dagur er tekinn að styttast, og úti er farið að kólna. Þið vitið hvað það þýðir. Kjöraðstæður til að draga fram Grillið!

Stelpurnar okkar hefja leik í Grill 66 deildinni í kvöld, þegar lið Fram U mætir í Krikann. Sem fyrr er erfitt að segja til um það, hvaða lið það er sem mætir til leiks í fyrstu umferð þegar ungmennalið eru annars vegar. Hvaða leikmenn eru þeir sömu og léku með liðinu í fyrra, og hverjar hafa tekið skrefið upp á við í aðallið síns félags? Vandi er um slíkt að spá.

Ég get ímyndað mér að það sé ákveðið flækjustig sem fylgir því, að undirbúa slíkan leik. Við sáum það til dæmis í fyrra. Í upphafsleik stelpnanna okkar á síðasta tímabili mættu þær liði HK U, sem gerði sér lítið fyrir og vann þann leik með 5 marka mun. Þar léku Berglind Þorsteinsdóttir og Elva Arinbjarnar stór hlutverk, en þær voru síðan hvergi sjáanlegar þegar okkar stelpur unnu 11 marka sigur í Digranesi. Það er engin leið að vita hverjum þú mætir, fyrr en skýrslan er staðfest.

Ungmennalið Framara lenti í 4. sæti Grill 66 deildarinnar í fyrra, tveimur stigum og sætum fyrir ofan stelpurnar okkar.  Um var að ræða hörkulið, og í ljósi þeirra viðbóta sem Framarar hafa gert við aðallið sitt má fullyrða að hið sama verði uppi á teningunum núna.

Þrátt fyrir að lið Fram hafi endað ofar en FH síðasta vetur, þá unnu stelpurnar okkar báðar viðureignir liðanna. Sú fyrri endaði með þriggja marka sigri í Safamýrinni, 19-22, en í síðari leiknum vann FH-liðið 12 marka stórsigur eftir frábæran seinni hálfleik.

Stóran hluta velgengninnar hjá liði Fram á liðnu tímabili má rekja til afar efnilegrar ungrar skyttu, Lenu Margrétar Valdimarsdóttur. Lena, sem leikur hægra megin á vellinum, skoraði 132 mörk í 18 leikjum sínum með Fram U – sem gerir um 7,33 mörk í leik. Það er 62 mörkum meira en sú næstmarkahæsta í liði Framara skoraði það tímabilið. Það verður athyglisvert að sjá, hvort hún verði með í kvöld, því hún er farin að banka ansi fast að dyrum hjá aðalliði Safamýrarkvenna. Lék hún einmitt með þeim í Meistarakeppni HSÍ, og skoraði 3 mörk í sigri Framara.

Óháð því hvort að Lena Margrét verði með eða ekki er ljóst, að Framarar mæta með gott lið til leiks í kvöld. Vel hefur verið haldið á spilunum í yngri flokkunum í Safamýrinni undanfarin ár, og er efniviðurinn töluverður sem ekki kemst að í aðalliðinu enn sem komið er. Stelpurnar okkar verða að mæta klárar í slaginn.

Embla Jónsdóttir verður áfram í stóru hlutverki í vetur / Mynd: Brynja T.

Leikur FH-stelpna hefur lofað verulega góðu í sumar. Í tvígang hafa þær lagt úrvalsdeildarlið ÍBV að velli, og þá hafa sannfærandi sigrar einnig unnist gegn góðum liðum ÍR og Vals U. Þá tapaðist leikur gegn úrvalsdeildarliði Hauka naumlega.

Nýr þjálfari liðsins, Jakob Lárusson, hefur í vetur til umráða sama kjarna og var í liðinu á síðustu leiktíð, með nokkrum breytingum þó. Freydís Jara Þórsdóttir, sem gekk til liðs við FH um miðja síðustu leiktíð, hélt á braut og leikur með Gróttu í vetur. Jenný Fjóla Ólafsdóttir er flutt erlendis og verður því ekki með (nema í anda), og þá hafa þær Hildur Guðjónsdóttir og Hanna Jóna Sigurjónsdóttir gengið til liðs við Stjörnuna, en þær léku báðar með Garðbæingum frá áramótum. Á móti kemur að reynsluboltinn Birna Íris Helgadóttir hefur rifið skóna af hillunni á nýjan leik, sem er mikið gleðiefni, og þá hafa ungar og efnilegar FH-stelpur bæst við æfingahópinn.

Útkoman er sú, að í vetur búum við svo sannarlega yfir liði sem spennandi verður að fylgjast með. Ungur, efnilegur kjarni er orðinn árinu eldri. Stelpurnar léku á löngum köflum stórskemmtilegan handbolta á síðasta tímabili, en óstöðugleikinn varð þess valdandi að þær gerðu ekki meira tilkall til sætis í efstu deild en raunin varð. Fækki þeim leikjum sem eru yfir pari, þá geta stelpurnar okkar gert alvöru atlögu að Olísdeildinni.

Birna Íris Helgadóttir hefur tekið skóna af hillunni víðfrægu, og leikur með FH-liðinu í vetur / Mynd: Jónas Árnason

Því er einmitt spáð, líkt og í fyrra, að sú verði raunin. Annað árið í röð er FH-liðinu spáð sigri í Grill 66 deildinni af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum. Það segir okkur það, að andstæðingar okkar hafa miklar mætur á stelpunum okkar – rétt eins og við sem fylgjumst með þeim. Það segir okkur einnig, að hvert sem stelpurnar koma í vetur verður stórleikur á dagskránni. Dreginn verður stór, rauður hringur utan um dagsetninguna á dagatalinu hvenær sem þær eru væntanlegar á svæðið. Það vilja öll lið vinna FH.

En þannig viljum við hafa það. Það á að vera fylgifiskur þess, að bera FH-merkið á brjósti sér í hvaða keppni sem er. Það er til marks um stórveldi. Til marks um félag sem á að vera á hæsta stalli alls staðar.

Með ykkar stuðningi getum við komist þangað. Lyftum þessu upp á hærra plan með stelpunum okkar í vetur. Sýnum það í verki, innan vallar og utan, að FH á heima í Olísdeildinni. Vegferðin byrjar í dag.

Við erum FH!
– Árni Freyr