Hvernig lýsir maður tilfinningu sem þessari í einu orði? Allt er þetta rúllað af stað. Já, farið á fleygiferð. Stórleikur í kjölfari stórleiks í kjölfari stórleiks. Það er gaman að vera FH-ingur í dag. Reynum að fanga andartakið í einu orði. Hvert er það?

Gírun.

Ekki fallegasta orðið í okkar ástkæra ylhýra, en samt svo vel viðeigandi. Um leið og gengið er fyrir hornið hjá Sjónarhól, leggst hún yfir líkt og lyktin af glóðarsteiktum hamborgurum. Tengibyggingin, bikararnir í glugganum, fólkið. Velkomin í Kaplakrika. Það er leikdagur. Besti dagur vikunnar í hvaða viku sem er.

Ég fann hana. Þið funduð hana líka. Og inni á vellinum endurspeglaðist þetta allt í strákunum okkar.

Það varð brátt ljóst, að þetta gat bara endað á einn veg. Stórsigur strákanna okkar í leik gegn sterkum andstæðing – þar sem við reyndumst einfaldlega miklu, miklu sterkari. Og hversu gott var á að horfa?

Nú er að fanga þessa stemningu, þessa gleði og þessa gírun aftur. Við þurfum á því öllu að halda, því Íslandsmeistararnir eru að koma í heimsókn.

Það er engin hætta á öðru en að Selfyssingar mæti klárir til leiks í Kaplakrika á miðvikudag. Leikurinn í gær verður tekinn fyrir á myndbandsfundi á morgun. Þar fyrir utan er ekki langt síðan liðin léku síðast – ekki nema vika, ef út í það er farið. Þá lyftum við bikar, sælla minninga, og fyrir það vilja þeir hefna.

Andstæðingana þarf vart að kynna. Með óskabarn þjóðarinnar, Hauk Þrastarson, í fararbroddi mæta Selfyssingar með lítið breytt lið til leiks. Að því sögðu hvarf einn risastór póstur á brott í formi Elvars Arnar Jónssonar, og þá misstu Selfyssingar varnartröllið Sverri Pálsson í slæm meiðsli korter í mót. Einar Baldvin Baldvinsson styrkið liðið til mikilla muna, en hann kom á láni frá Val og mun vafalaust verða fyrsti valkostur milli stanganna á komandi leiktíð. Þá var Magnús Öder Einarsson afgerandi leikmaður í liði Gróttu á löngum köflum á síðustu leiktíð, og er hann nú eflaust æstur í að sanna sig á heimaslóðum.

Stór skörð hafa verið hoggin í formi Elvars og Sverris, en skörð eru til þess að fylla í þau. Maður kemur í manns stað, og er það hlutverk Gríms Hergeirssonar að finna hina bestu mögulegu lausn þar. Ef miðað er við spilamennsku Selfyssinga í síðastliðinni viku er það ferli á fínum stað. Sunnlendingar eru til alls líklegir.

Bjarni Ófeigur sprengdi upp Belga á sunnudag / Mynd: Jói Long

Hið sama má segja um strákana okkar, svo sannarlega. Gangurinn síðustu vikur hefur verið gríðarlega góður, og í leiknum í gær voru mörg jákvæð teikn á lofti. Í markinu fór nýr markvörður FH-liðsins, Phil Döhler, á kostum. Hann varði 21 skot, sem gerir 50% hlutfallsmarkvörslu, og breytti þar að auki skotum gestanna í sífellu með góðum staðsetningum. Bjarni Ófeigur Valdimarsson lét svo heldur betur að sér kveða í bæði sókn og vörn, en hann var markahæsti maður vallarins með 7 mörk. Sá mætir til leiks í standi og fullur sjálfstrausts – stjarna í mótun.

Svona má endalaust halda áfram. Strákarnir voru þéttir, vel leikandi og af þeim geislaði hrein og tær baráttugleði. Það ber að hrósa þeim öllum, sem einstaklingum og liðsheild. Þeir ætluðu sér sigur, og þeir ætluðu sér áfram. Þeir voru gíraðir. Bullandi, sjóðandi gíraðir.

Betra veganesti í leik sem þennan gæti ég ekki hugsað mér. Þegar sterkt lið sem þetta mætir í heimsókn, er ekki verra að stemningin sé klædd í svart og hvítt. Föngum hana, nýtum hana og – umfram allt annað – njótum hennar.

Meðmælin eru ósköp einföld: Ekki missa af þessu. Ekki freistast til þess að ná Kastljósinu í línulegri dagskrá – það má bíða, þetta veistu. Vertu með í gleðinni frá upphafi. Mættu á pallana og vertu hluti af einhverju stærra. Byrjum þetta með hvelli, leggjum meistarana að velli!

Við erum FH!
– Árni Freyr