Strákarnir okkar leika sinn annan leik í Olísdeildinni á morgun, þegar vel skipað lið Vals mætir í heimsókn. Þar er um sannkallaðan stórleik að ræða, bæði í ljósi sögunnar og þess hvaða gengi liðunum er spáð á þessari leiktíð.

Lið Vals endaði í 3. sæti á síðustu leiktíð, stigi á eftir Haukum og Selfossi sem voru í sætum 1 og 2 en heilum 6 stigum á undan okkur FH-ingum í 4. sæti. Vegferð þeirra í úrslitakeppninni lauk í undanúrslitum, en þaðan sópuðu Selfyssingar þeim út. Svo þarf ekki að minna nokkurn mann á það hvernig bikarkeppnin gekk, en þar lutu Valsmenn í lægra haldi gegn strákunum okkar í úrslitaleiknum. Lokaniðurstaðan var því titlalaust ár, annað árið í röð, en ljóst er að það er undir væntingum á Hlíðarenda. Má því ætla að í ár verði allt lagt í sölurnar til að sú verði ekki raunin að nýju.

Oft hafa verið gerðar meiri breytingar á liði Vals milli keppnistímabila heldur en nú í sumar. Hornamaðurinn Finnur Ingi Stefánsson gekk til liðs við félagið á nýjan leik, og þá kom kempan Hreiðar Levy Guðmundsson á láni frá Selfossi. Markvörðurinn efnilegi Einar Baldvin Baldvinsson var lánaður austur fyrir fjall í staðinn, og þá voru nokkrir leikmenn til viðbótar látnir róa í önnur félög – þó fáir sem höfðu haft eitthvert hlutverk á Hlíðarenda.

Valsmenn byrjuðu deildarkeppnina síðastliðinn mánudag með góðum sigri á nágrönnum sínum í Fram. Þar má segja að varnarleikurinn hafi spilað stóra rullu, en lokatölur voru 20-14 Hlíðarendapiltum í vil. 14 mörk. Heil 14 mörk fengin á sig. Geri aðrir betur. Segja þessi úrslit sögu þessa liðs nokkuð vel. Velgengni þeirra er og verður byggð á góðum varnarleik og markvörslu.

Það er ekki þar með sagt, að aukvisar spili sóknarleikinn – langt því frá. Sóknarlína með leikmönnum á borð við Róbert Aron Hostert og Anton Rúnarsson verður ávallt til vandræða. Þá eru mikil gleðitíðindi fyrir Valsmenn, að Magnús Óli Magnússon er snúinn aftur eftir vond meiðsli, sem kláruðu tímabilið fyrir honum í vor. Hann sneri aftur með látum á mánudag, og var markahæsti leikmaður liðsins með 6 mörk.

Gott sóknarlið. Framúrskarandi varnarlið. Valsliðið er alltaf verðugt verkefni. Við verðum að vera klárir.

Gústi átti flottan leik á línunni í fyrstu umferðinni / Mynd: Jói Long

Oft á tíðum virðist vera sérlega erfitt, að leggja lið að velli í einni keppni hafi sigur unnist í annarri keppni gegn sama liði skömmu áður. Við sáum það í sumar hjá meistaraflokki karla í fótbolta, sem rúllaði yfir Grindavík í bikarnum (7-1) áður en liðin skildu jöfn í deildinni nokkrum dögum síðar (0-0). Hið sama var upp á teningunum hjá strákunum okkar á dögunum – þó ekki jafn drastískt og sást í sumar.

Það voru Selfyssingar sem hirtu stigin tvö í Krikanum á miðvikudag, viku eftir að strákarnir okkar höfðu lagt Íslandsmeistarana að velli í Meistarakeppni HSÍ. Að tapa handboltaleik þegar einn efnilegasti leikmaður heims er í hinu liðinu – og það í hrikalegum ham? Getur skeð. Við vorum ekki upp á okkar besta, en þó voru góðir hlutir að gerast innan um það sem gat betur farið.

Bjarni Ófeigur, sem dæmi. Enn steig hann upp. 8 mörk skoruð, þar sem hann fylgdi eftir 7 marka leikjum gegn HC Visé í EHF-bikarnum og Selfossi í Meistarakeppninni. Ásbjörn steig upp svo um munaði í síðari hálfleik og endaði með 6 mörk, og þá var Ágúst að slútta vel á línunni.

Allt í allt hittum við ekki á daginn okkar í fyrstu umferðinni. Það þýðir hins vegar lítið að dvelja við það. Á morgun er nýr leikur, nýtt tækifæri til að komast á blað. Og það munum við gera, ég efast ekki um það.

Góður varnarleikur er grunnur að góðum leik / Mynd: Jói Long

Með þéttum varnarleik, góðri markvörslu og skilvirkum sóknarleik getum við lagt sterkt lið Vals að velli. Þá skemmir ekki fyrir ef stuðningurinn á bak við liðið er góður – og hér langar mig að nýta tækifærið og hrósa ykkur, kæru FH-ingar.

Mætingin á fyrstu 2 heimaleiki FH-liðsins á keppnistímabilinu hefur verið frábær, að mínum dómi. Meira en 700 manns á tveimur heimaleikjum með afar stuttu millibili er nokkuð sem fá félög í Olísdeildinni geta státað sig af. Ef til vill erum við ein um það.

Nú langar mig að biðja um, að við höldum uppteknum hætti – og gerum jafnvel enn betur en það. Það er um sannkallaðan stórleik að ræða. Risaslag. Þegar tvö sigursælustu félög landsins leiða saman hesta sína á að vera fullt á pöllunum. Ég tala nú ekki um þegar liðin eru jafn góð og raun ber vitni.

Þetta er ,,no-brainer“. Þetta verður veisla. Og þið vitið hvernig það er – veislan er ekkert án gestanna. Mættu í þínu fínasta pússi (helst hinum glæsilega nýja FH-búningi frá PUMA) og taktu inn þinn skerf af kræsingunum. Þú átt það skilið.

Við erum FH!
– Árni Freyr