Það var ljóst að heimsókn FH í Árbæ yrði afar áhugaverð. Fylkisliðið unga, undir stjórn Ómars Arnar Jónssonar, er afar vel skipulagt og þétt í vörn og keyrir alltaf áfram á 100% krafti sama hver staðan er. FH-stelpur höfðu ekki hrósað sigri á Fylki í rúm tvö ár og oft virkað ólíkar sjálfum sér gegn Árbæingum. Það sama virtist upp á teningnum fyrstu mínútur leiksins í gærkvöldi.

Fylkisliðið lokaði vel á sóknarleik FH-inga og refsaði með hraðaupphlaupum. En eftir um kortersleik varð algjör viðsnúningur. FH-liðið fór að klára sóknirnar sínar af öryggi og hinum megin var Dröfn Haraldsdóttir farin að grípa meirihluta af skotum Fylkiskvenna. Sterkur 7-1 kafli skilaði FH-liðinu að lokum fimm marka forskoti í hálfleik, 8-13.

Borgarlína, leið 4: beinasta leið upp vinstri vænginn. Engin stopp. Engar bremsur. Ragga fór á kostum í gær! 11 mörk skoraði hún að þessu sinni. / Mynd: Brynja T.

Stelpurnar negldu fætinum strax aftur á bensíngjöfina í upphafi seinni hálfeiks, hraðaupphlaup eftir hraðaupphlaup eftir hraðaupphlaup. Þar var Ragnheiður Tómasdóttir fremst í flokki með áætlunarferðir upp völlinn, sem voru betur skipulagðar heldur en opnunarhátíð á Ólympíuleikjum. Staðan orðin 10-17 eftir 35 mínútur og Ragga komin með 10(!) mörk. Fimm mínútum síðar var munurinn milli liðanna orðinn 10 mörk, 12-22, eftir að Sylvía Blöndal skoraði úr víti.

Eftir þetta fóru FH-konur að gefa aðeins eftir og misstu muninn niður í 7 mörk en brugðust vel við áhlaupi Fylkis og tryggðu sér sigur 18-25. Munaði þar mestu um ágætan varnarleik, þar sem Birna Íris Helgadóttir tók meðal annars sex bolta í varnarblokkinni.

Árbæjargrýlan sigruð með sjö mörkum en munurinn hefði getað orðið mun stærri með fullri einbeitingu.

Næst mæta stelpurnar Breiðhyltingum í Kaplakrika, föstudaginn, 18. okóber, kl. 19:30.

Við erum FH!
– Gimmi

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 11, Sylvía Björt Blöndal 5, Britney Cots 3, Aníta Theodórsdóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 2, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1, Fanney Þóra Þórsdóttir 1.