Að Evrópukeppninni lokinni fer nú allur fókus á Olísdeildina. Strákarnir okkar eiga heimaleik á miðvikudag í 6. umferð deildarinnar, en þá koma nýliðar Fjölnis í heimsókn.

Fjölnismenn hafa náð í 3 stig það sem af er öðru tímabili félagsins í efstu deild í sögunni. Stigin hirtu þeir af harðfylgi gegn Stjörnunni, þar sem jafntefli varð raunin þrátt fyrir að marga lykilmenn vantaði hjá þeim gulklæddu, og með sigri í jöfnum leik gegn hinum nýliðunum í HK.

Í hinum leikjum sínum hafa Dalhúsapiltar tapað nokkuð sannfærandi. Í tvígang fengu þeir á baukinn og töpuðu með 7 marka mun, gegn ÍR og KA, og þá unnu Framarar fjögurra marka sigur í ,,fjögurra stiga leik“ liðanna í síðustu umferð. Allir hafa tapleikir Fjölnismanna komið á heimavelli, merkilegt nokk.

Innan raða Fjölnisliðsins er að finna marga flinka leikmenn, sem flestir eiga það sameiginlegt að vera aldir upp í Grafarvoginum. Aðdáunarverð uppbygging hefur átt sér stað í Dalhúsum, sem nú hefur skilað sér í úrvalsdeildarhandbolta. Einn þessara uppöldnu stráka, Breki Dagsson, er sérlega afgerandi í liði Fjölnis. Veltur þeirra velgengni að miklu leyti á því, hvernig Breki mætir til leiks, og því er ljóst að vel þarf að taka á honum.

Síðast þegar FH og Fjölnir mættust urðu hinir gulklæddu ákveðnir örlagavaldar okkar manna. Fyrri leik liðanna, sem fram fór í Kaplakrika, unnu okkar menn að vísu með bravör – þar urðu lokatölur 41-29. Vandræðalaust. Það var hins vegar í síðari leiknum, í Grafarvogi, þar sem Fjölnismenn brugðu fyrir okkur fæti. Lauk þeirri viðureign með jafntefli, eftir að heimamenn höfðu leitt með tveggja marka mun í hálfleik, og urðu þau úrslit meðal annars þess valdandi að FH hampaði ekki deildarmeistaratitlinum annað árið í röð.

Egill lék sinn fyrsta leik með FH þegar Arendal kom í heimsókn um þarsíðustu helgi. Spennandi verður að fylgjast með framþróun þessa öfluga leikmanns í FH-treyjunni. / Mynd: Jói Long

Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta, að FH-liðið hefur átt erfiðustu dagskrána fyrir höndum í byrjun móts. Fjórum af fimm efstu liðum deildarinnar hafa FH-ingar þegar mætt, og Val þar að auki. 50% árangur hefur fengist úr þessum leikjum, sem er e.t.v. á pari. Selfoss og ÍBV hafa jafnan valdið okkur vandræðum, það var kærkomið að leggja Val og Aftureldingu að velli og þá náðu nágrannar okkar á Völlunum – sem allt vinna þessa dagana – ekki að komast framhjá okkur (ekkert frekar en síðustu ár). Við þetta hafa bæst erfiðir Evrópuleikir gegn sterku liði, sem reyndist ofjarl okkar að þessu sinni.

En þó að þessi erfiða törn sé búin er ekki þar með sagt, að restin verði líkt og göngutúr í garði. Öll vilja liðin verða okkur ljár í þúfu. Fjölnismenn ekki síst. Við megum aldrei mæta til leiks með hálfum hug, því þá er voðinn vís.

Að því sögðu hafa strákarnir gert vel í þessum verkefnum undanfarin ár. Þeir hafa, með fáum undantekningum, mætt einbeittir til leiks gegn liðum sem þeir ,,eiga“ að vinna og klárað þau verkefni af kostgæfni. Það er góður ávani.

Það verður spennandi að fylgjast með komandi umferðum. Við höfum verið að spila ágætlega, en getum við tekið eitt skref upp á við? Getum við komist á skrið og, ef við getum það, hvert skilar það okkur?

Bjarni Ófeigur hefur verið í hörkuformi upp á síðkastið. Heldur það áfram? Phil varði 18 skot í Noregi á laugardag. Tekur hann það með sér inn í komandi leiki? Egill er að komast í gang á nýjan leik eftir meiðsli. Hvað getur hann gert fyrir FH-liðið, þegar hann er kominn á kreik? Svo má lengi telja.

Gæðin eru til staðar. Það er óumdeilanlegt. Hver á að stoppa strákana, þegar þeir fara á flug? Gefum þeim byr undir báða vængi. Mætum og styðjum þá til sigurs – nú, sem fyrr og svo framvegis.

Við erum FH!
– Árni Freyr