Stelpurnar okkar eiga stórleik fyrir höndum annað kvöld, er ÍR-ingar mæta í heimsókn í 5. umferð Grill 66 deildarinnar.

Fyrir leik morgundagsins eru liðin jöfn að stigum í 3-4 sæti með 6 stig, en ÍR-ingar eru þó ofar á markatölu. Hafa Breiðhyltingar unnið þrjá leiki en tapað einum, eins og stelpurnar okkar, og kom eini tapleikur þeirra til þessa gegn sterku liði Selfyssinga í síðustu umferð.

Líkt og stelpurnar okkar ætlar lið ÍR sér upp í deild þeirra bestu á þessu keppnistímabili. ÍR, líkt og FH, á að eiga lið í efstu deild. Útlitið var líka lengst af gott á síðasta keppnistímabili uppi í Breiðholti, en á löngum köflum leiddi gott lið ÍR deildina með nokkrum yfirburðum. Eftir áramót fataðist þeim hins vegar flugið, og urðu ÍR-ingar að endingu í öðru sæti deildarinnar – fimm stigum á eftir liði Aftureldingar, sem varð deildarmeistari.

Í umspilið lá leiðin, og þar mættu ÍR-ingar nágrönnum sínum í Fylki. Fyrirfram hefðu flestir átt von á því, að upp úr því einvígi myndu Breiðhyltingar komast. Sú varð hins vegar ekki raunin. Árbæjarliðið vann sigur í báðum leikjum liðanna í umspilinu, og mætti því HK í úrslitum. ÍR-ingar, líkt og stelpurnar okkar, sátu eftir með sárt ennið að loknum undanúrslitum.

Frá síðasta vetri hafa átt sér stað ákveðnar breytingar. Sú stærsta er án nokkurs vafa brotthvarf Karenar Tinnu Demian úr Austurberginu, en hún gekk til liðs við Stjörnuna. Karen Tinna var langmarkahæst ÍR-inga á síðasta keppnistímabili, með 147 mörk í 19 leikjum (7,74 að meðaltali í leik), og má ætla að hún skilji eftir sig stórt skarð. Þá fóru þær Silja Ísberg og Sara Kristjánsdóttir – næst-og þriðju markahæstar með 82 og 81 mark – sem pakkadíll í Mosfellsbæinn. Markvörðurinn Tinna Húnbjörg Einarsdóttir hélt síðan heim á Ásvelli, en í öfuga átt fór Anna Borg Bergmann Aronsdóttir, sem nú ver ramma Breiðhyltinga ásamt fleirum.

Karen Tinna fór hamförum í fyrra og sakna ÍR-ingar hennar eflaust, en þegar einar dyr lokast þá opnast vanalega aðrar. Ólöf Marín Hlynsdóttir kom til liðs við ÍR-inga í sumar frá KA/Þór, og hefur hún farið hamförum í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. Í þeim leikjum hefur hún skorað 33 mörk, eða 8,25 að meðaltali í leik. Annar nýr leikmaður í röðum ÍR-inga, Arna Kristín Einarsdóttir, lítur ekki síður vel út. Hún kom frá Selfossi, og hefur í þremur leikjum skorað 20 mörk, eða 6,67 að meðaltali. Annar leikmaður, sem gekk til liðs við ÍR frá KA/Þór í sumar, á enn eftir að spila leik fyrir félagið – en mun eflaust koma sterkur inn þegar að því kemur. Það er Sólveig Lára Kristjánsdóttir, sem spilaði alla leiki norðankvenna í Olísdeildinni í fyrra.

Eitt er víst. ÍR-ingar eru einfaldlega með hörkulið.

En það höfum við einnig. Stelpurnar okkar hafa sýnt góða spilamennsku eftir að hafa tapað illa í fyrstu umferð. Hafa þær sýnt, að þær ætla sér að vera ,,þarna uppi“ þegar uppi er staðið. Sérlega jákvætt var, að sjá þær fara í Árbæinn í síðustu viku og vinna þar afar öruggan sigur. Við höfum oft átt í vandræðum gegn þeim óranslituðu á undanförnum árum, en að þessu sinni varð breyting þar á.

Ólíkt liði ÍR þá hefur lið FH lítið breyst frá síðasta keppnistímabili, líkt og áður hefur verið fjallað um. Stelpurnar ákváðu, að þroskaferli þeirra væri best hólpið hér – í Mekka handboltans. Það er vel, og nú kemur ágætis próf á það, hvar þær standa í þeim þroska.

Á sama tíma og heimaleikur stelpnanna gegn ÍR á síðasta tímabili sýndi, hve mikið stelpurnar áttu eftir ólært, þá bentu báðir útileikirnir (í deild og bikar) til þess hvað í þær væri spunnið. Sjö marka sópun (tapi) hér heima fylgdu tveir leikir í Austurberginu, þar sem taugarnar voru þandar til hins ítrasta en okkar stelpur stóðu uppi sem sigurvegarar að lokum. ,,Naïveté“ eina stundina, svellköld klárun þá næstu. Eilítið í takt við þann óstöðugleika, sem einkenndi þetta efnilega lið á síðasta tímabili. Táknrænt, jafnvel.

Það er skemmtilegt að fylgja ungu liði sem þessu eftir, en það verður enn ánægjulegra að sjá þeim skiptum fækka, þar sem ungdómur þess er bersýnilegur. Við erum á þeirri vegferð sem stendur, og vafalítið með stefnu í rétta átt.

Komdu í Krikann og styddu við stelpurnar okkar í fyrsta alvöru stórleik vetrarins. Mjökum okkur saman í átt að toppnum!

Við erum FH!
– Árni Freyr