Það er sannkallaður risaleikdagur framundan í Kaplakrika! Meistaraflokkar karla og kvenna eiga bæði leik á morgun, er tvö rauð/svart röndótt lið mæta í heimsókn.

Strákarnir okkar ríða á vaðið kl. 17:00, er þeir leika gegn norska liðinu ØIF Arendal í annarri umferð EHF-bikarsins.

ØIF Arendal hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem eitt allra sterkasta handknattleikslið Noregs. Félagið, sem var sett á stofn árið 1929 (líkt og okkar ástkæra Fimleikafélag), lék í fyrsta sinn í efstu deild árið 2009 og hefur leikið þar frá þeim tíma með góðum árangri. Raunar svo góðum, að liðið hefur orðið deildarmeistari í þrígang á þessum stutta tíma – síðast nú í vor. Enn hefur þó ekki tekist að landa þeim stærsta, Noregsmeistaratitlinum, en hann endar alla jafna í fórum Elverum. Voru það einmitt þessi tvö lið, sem börðust um titilinn í úrslitakeppninni í vor.

Evrópuhefðin er rík hjá andstæðingum okkar, því þeir hafa tekið þátt í Evrópukeppnum á hverju einasta ári frá þeirra fyrsta í efstu deild – að einu ári undanskildu. Í fyrra fór Arendal í 16 liða úrslit Áskorendabikars EHF, þar sem Norðmennirnir duttu út gegn Dynamo-Victor frá Rússlandi. Í frétt sem félagið skrifar um leik morgundagsins kemur fram, að nú ætli þeir sér lengra heldur en nokkru sinni fyrr. En við höfum víst aðrar hugmyndir um það.

Tímabilið hefur ekki byrjað eins og best verður á kosið hjá silfurliði ársins í fyrra. Sem stendur hafa ØIF Arendal unnið einn sigur í fyrstu fjórum leikjum sínum, og sitja því í 9. sæti deildarinnar með 2 stig. Nú síðast máttu gestir okkar sætta sig við þriggja marka tap gegn FyllingenBergen, 28-25. Þeir gætu því mætt til leiks örlítið særðir, en í öllu falli ákveðnir í því að snúa gengi sínu við. Ný keppni býður upp á nýja möguleika, nýtt upphaf. Það vilja þeir nýta sér.

Verkefnið, sem framundan er, er svo sannarlega krefjandi. Arendal er félag, sem gerir allt upp á 10 og á öflugt lið sem stefnir hátt – það er jú ekki á færi hvers sem er, að standa í slag við það veldi sem Elverum er orðið í Noregi. Það er mikil stemning fyrir handbolta í Arendal, enda ekki ástæða til annars. Allt virðist vera á uppleið á þeim bænum.

Bjarni Ófeigur hefur leikið vel það sem af er tímabili, og verður í eldlínunni á morgun gegn Arendal / Mynd: Jói Long

Það skiptir gríðarlega miklu máli í Evrópukeppnum sem þessum, að heimaleikirnir nýtist vel. Um næstu helgi halda strákarnir okkar á erfiðan útivöll ytra, þar sem baráttan frá leik morgundagsins heldur áfram. Þá er ekki verra, að hafa góð úrslit með í farteskinu.

FH mætti Norsku liði síðast í Evrópukeppni árið 2011, nánar tiltekið í undankeppni Meistaradeildarinnar. Leikið var í Ísrael, og var andstæðingurinn í það skiptið vel mannað lið Haslum HK, sem meðal annars tefldi fram þeim Kent Robin Tönnesen (nú leikmaður Veszprém) og Erlend Mamelund (Flensburg, Montpellier, Kiel o.fl.). Reyndust Norðmennirnir vera ofjarlar okkar manna í það skiptið, og fóru með 29-36 sigur af hólmi.

Það er kominn tími á endurmat. Endurtökupróf.

Hvar stöndum við nú, miðað við þessi bestu norsku lið? Framþróunin hefur verið mikil í norskum handbolta síðastliðin ár, en það sama má segja um málaflokkinn í Kaplakrika. Deildin hér heima hefur eflst til muna frá þeim tíma, þegar leiðir okkar og norskra víkinga lágu síðast saman. Við höfum náð vopnum okkar.

Að því sögðu, þá þurfum við auðvitað að eiga okkar allra besta leik til að hámarka möguleika á sigri. Við þurfum vörn. Við þurfum markvörslu. Agaður sóknarleikur er mikilvægur sem aldrei fyrr. Og síðast en ekki síst, þá er stuðningur ykkar lífsnauðsynlegur.

Við gátum treyst á ykkur, kæru FH-ingar, þegar Belgarnir voru lagðir að velli fyrr í haust. Mætingin var verulega góð, og stuðningurinn sömuleiðis. Það skilaði sér svo um munaði, strákarnir tvíefldust og unnu að lokum auðveldan sigur. Þetta er klisja, svo sannarlega, en af góðri ástæðu. Ykkar framlag skiptir máli.

Í síðari leik morgundagsins, sem hefst kl. 19:30, taka stelpurnar okkar á móti Víkingum í Grill 66 deildinni.

Eftir erfiðan leik í 1. umferð, gegn Fram U, gerðu stelpurnar okkar vel í síðustu umferð og unnu góðan sigur á sterku liði Vals U á Hlíðarenda. Þær eru því nú með 2 stig að loknum fyrstu tveimur umferðum mótsins, og sitja í 6. sæti deildarinnar.

Lið gestanna í Víkingi hefur tapað báðum leikjum sínum á mótinu til þessa, gegn HK U og Selfossi, með samanlagt 7 marka mun. Á sama tíma í fyrra höfðu Víkingar tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með 33 marka mun, svo að þar virðist vera að eiga sér stað framför. Hið forna stórveldi er e.t.v. ekki komið nálægt þeim stalli sem það vill vera á, en góðir hlutir gerast hægt.

Leikjum liðanna í fyrra lauk báðum með nokkuð sannfærandi sigrum FH-liðsins. Fyrri leikurinn, í Víkinni, endaði með 13 marka sigri FH-inga, en í síðari leiknum í Kaplakrika var öllu jafnari staða. Þeim leik lauk með 5 marka sigri FH-liðsins, eftir að það hafði leitt með 4 mörkum í hálfleik.

Lið Víkings hefur ekki unnið marga handboltaleiki síðustu ár, en það þýðir ekki að tilefni sé til afsláttargjafar. Þá fljótum við sofandi að feigðarósi. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því. Stelpurnar mæta til leiks á tánum, klárar í verkefnið og vinna þau tvö stig sem í boði eru. Þannig færast þær nær toppnum, þar sem þær eiga heima.

Ragnheiður lék stórt hlutverk í sigri stelpnanna okkar á Val U / Mynd: Brynja T.

Á morgun býðst okkur tækifæri til nokkurs, sem ekki hefur verið mikið af síðustu ár. Tvíhöfði í Kaplakrika. Fyrir mér hefur það mikla þýðingu.

Mæting á leiki meistaraflokks karla í FH er með því allra besta sem gerist á landinu. Það eru fá félög sem standast okkur snúning þar, ef nokkur. Stelpurnar hafa fengið þokkalega mætingu á sína heimaleiki, sérstaklega ef borið er saman við sum þeirra liða sem leika í efstu deild. En alltaf má gera betur.

Þeir eru ófáir FH-ingarnir, sem sjá alla leiki karlaliðsins en eiga eftir að kynnast stelpunum í meistaraflokki kvenna. Á morgun gefst fullkomið tækifæri, til að bæta úr því. Komdu í Krikann, kæri FH-ingur, og njóttu handboltaveislunnar með okkur frá upphafi til enda.

Sjáðu strákana okkar stríða gegn einu sterkasta liði Noregs. Gæddu þér síðan á dýrindis borgara frá Kjötkompaníi, og tylltu þér aftur á pallana. Styddu stelpurnar okkar því næst til sigurs.

Sýnum samstöðu með öllu okkar frábæra íþróttafólki í verki. Þá verður vegur félagsins á öllum vígstöðvum, innanlands sem utan, sem mestur.

Við erum FH!
– Árni Freyr