FH og Selfoss gerðu jafntefli í kaflaskiptum og spennandi leik liðanna í Grill 66 deild kvenna í kvöld. Um var að ræða sannkallaðan toppslag, en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 2 og 3. sætum deildarinnar – og eru það þar af leiðandi enn.

FH-stelpur byrjuðu leikinn heldur betur, og leiddu mest með 6 marka mun þegar fyrri hálfleikur var hér um bil hálfnaður. Staðan 4-10 og útlitið verulega gott. Þá tók heimaliðið hins vegar heldur betur við sér, skoraði 7 mörk í röð og leiddi þegar flautað var til hálfleiks, 11-10.

Góður gangur Selfyssinga hélt áfram eftir hlé, og náðu þær mest 4 marka forystu þegar um korter var liðið af síðari hálfleik. Staðan 17-13 og ljóst var, að mikið verk var að vinna á lokakaflanum.

Aníta setti 3 í kvöld / Mynd: Brynja T.

Sem og stelpurnar okkar síðan unnu. Með góðum varnarleik og markvörslu komu þær sér aftur inn í leikinn, og raunar svo vel að þær leiddu með eins marks mun þegar skammt var til leiksloka. Fengu FH-stelpur tækifæri til að auka muninn í tvö mörk, sem gekk ekki eftir. Á hinum endanum náðu heimakonur að jafna metin og þar við sat. 18-18 lokaniðurstaðan, sem líklega var hin sanngjarnasta útkoma úr þessum spennandi og skemmtilega leik.

Í liði FH var Ragnheiður Tómasdóttir markahæst, en hún skoraði 7 mörk að þessu sinni. Þær Sylvía Björt Blöndal og Aníta Theodórsdóttir komu næstar á eftir henni með 3 mörk hvor.

Næsti leikur FH-liðsins er sunnudaginn næsta, 17. nóvember, en þá kemur lið ÍBV U í Krikann. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 7, Sylvía Björt Blöndal 3, Aníta Theodórsdóttir 3, Embla Jónsdóttir 2, Britney Cots 1, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1, Fanney Þóra Þórsdóttir 1
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 6, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 1.