FH-stelpur mættu HK U í gærkvöldi í Kaplakrika, í því sem reyndist verða mikill markaleikur. Embla Jónsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins og eftir það var sigurinn nánast aldrei í hættu. Allt frá stöðunni 1-1 á fyrstu mínútu voru FH-stelpur yfir í leiknum, og staðan eftir 5 mínútna leik var orðin 4-1 FH í vil. Góð vörn og flott flæði í sóknarleiknum skilaði FH stelpunum 6 marka forskoti að loknum fyrri hálfleik – þegar flautað var til hálfleiks var staðan 21-15, FH í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega hjá okkar konum og náði HK U að minnka muninn í 5 mörk. Þá tók seiglan hjá FH liðinu hins vegar við og með flottum hraðaupphlaupum, sterkri vörn og markvörslu juku stelpurnar forskotið í 8 mörk. Á þeim tímapunkti varði Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir meistaralega víti, sem varð til þess að stelpurnar okkar komust á flug og mest í 13 marka forskot. Við það fór sóknarleikurinn aðeins að róast hjá FH-stelpum. Nokkrir boltar töpuðust og nokkur skot geiguðu, en með sterkri og agaðri vörn enduðu FH-stelpur leikinn með 12 marka sigri, 38-26.

Mætt aftur út á gólf! / Mynd: Brynja T.

Það var frábært að sjá Emblu Jónsdóttur koma sterkt aftur inní liðið, þar sem hún býr yfir miklum leikskilning og gefur sóknarleiknum annað flæði auk þess að vera með frábærar línusendingar. Hún á miðjunni með þessar sterku skyttur sér við hlið, eins og t.d. Sylvíu Björt Blöndal sem endaði með 12 mörk, býður upp á vandræði fyrir hvaða lið sem er.

Það sem stóð uppúr hjá mér í leiknum var hversu agaðar og sterkar FH stelpur voru í vörninni. Þær voru ekki að láta henda sér útaf í 2 mínútur trekk í trekk fyrir klaufagang í vörninni, líkt og hefur stundum verið raunin í þeirra leik. Þegar vörnin er  góð líkt og hún var í þessum leik er dýrmætt að vera með hraðar stelpur sem geta keyrt upp völlinn og skorað mikilvæg hraðaupphlaupsmörk, og þar er Ragnheiður Tómasdóttir í algjörum sérflokki. Það virðist enginn getað náð henni þegar hún þeytist upp völlinn.

Þetta var sterkur sigur hjá FH-liðinu, sem hélt sér þar með í 2-3. sæti í deildarinnar. Jafnar þeim að stigum eru Selfyssingar, sem eru í 3. sæti á lakari markatölu en okkar stelpur hafa. Á toppnum sitja síðan Fram U, tveimur stigum á undan. Það er mín tilfinning, að stelpurnar eigi góða möguleika á titlinum og að koma sér upp í Olísdeildina ef þær halda áfram þeim leik sem þær hafa sýnt í síðustu 6 umferðum. Meira svona, takk!

Næsti leikur stelpanna er í 16 liða úrslitum Coca Cola bikarsins. Sá leikur fer fram á fimmtudag, en þær halda þá í Fossvoginn og mæta Víkingum. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Kristín Þóra

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 12, Ragnheiður Tómasdóttir 9, Fanney Þóra Þórsdóttir 5, Emilía Ósk Steinarsdóttir 3 Embla Jónsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 2, Aníta Theodórsdóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 1, Britney Cots 1, Andrea Valdimarsdóttir 1,
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 9, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 7 (samanlagt 38% markvarsla)

Leikurinn var í beinni útsendingu á YouTube. Útsendinguna má nálgast hér að neðan:

https://www.youtube.com/watch?v=G418EIZdIPY