Stelpurnar okkar taka á móti ungmennaliði ÍBV í Grill 66 deildarinni á morgun. Um er að ræða leik í 9. umferð deildarinnar, en með sigri geta stelpurnar okkar sest einar í 2. sæti deildarinnar, þar sem Selfyssingar gerðu jafntefli í leik sínum gegn Gróttu sem fram fór í dag.

Lið ÍBV U hefur átt gott tímabil til þessa, og situr sem stendur í 6. sæti deildarinnar. Í fyrstu 8 leikjum tímabilsins hafa 4 leikir unnist, 3 hafa tapast en einum leik hefur lokið með jafntefli. Eru Eyjakonur með besta U-lið landsins um þessar mundir, sé topplið Fram U undanskilið.

Eyjakonur tefldu ekki fram U-lið á síðustu leiktíð, og því er ógjörningur að gera samanburð á gengi ársins í ár og þess sem áður hefur verið. Hins vegar hefur gott starf verið unnið í yngri flokkum undanfarin ár, og það virðist vera efniviður til staðar. Átti ÍBV t.a.m. eitt besta 3. flokks lið landsins á síðustu leiktíð, en það lið endaði í 2-3. sæti 1. deildar og komst einnig í undanúrslit Íslandsmótsins og bikarkeppninnar.

Nokkur snertiflötur virðist vera á milli aðalliðs og varaliðs Eyjakvenna á þessu tímabili. Sem dæmi leikur Ásta Björt Júlíusdóttir stórt hlutverk í báðum liðum, en hún hefur tekið þátt í öllum leikjum þeirra beggja og skorað í þeim samanlagt 110 mörk (57:53, Grillinu í vil). Dæmin eru fleiri. Til að mynda leika tveir þeirra erlendu leikmanna sem ÍBV fékk til sín fyrir tímabilið, þær Ksenija Dzaferovic og Darja Zecevic, báðar með báðum liðum. Lífið er jú, umfram allt annað, leikur.

Aníta Theodórdóttir lék vel gegn Selfossi / Mynd: Brynja T.

Í síðustu umferð tóku Eyjakonur á móti Víkingum, og gerðu það með mikilli hörku. 15 marka sigur varð raunin, 36-21, þar sem áðurnefnd Dzaferovic skoraði 9 mörk og Harpa Valey Gylfadóttir gerði 7. Þetta er hörkulið sem við fáum í heimsókn á morgun, og undir það verða stelpurnar að vera búnar.

Spilamennska stelpnanna okkar og gengi upp á síðkastið hefur verið með góðu móti. Enn meir hefði mátt mæra þær, hefði sigur náðst á Selfossi í síðustu umferð, en sanngjarnt jafntefli varð þar víst niðurstaðan. Þar mistókst að fara fram úr Sunnlendingum, en urðu liðin fyrir vikið jöfn að stigum að umferðinni lokinni.

Nú gefst annað tækifæri. Í deild þar sem dýrt er að misstíga sig er mikilvægt, að nýta hvern möguleika sem gefst til að fara fram úr liðum í kring. Það geta stelpurnar gert á morgun.

Ef hugarfarið er rétt og viljinn er til staðar munu gæðin skína í gegn. Og þau höfum við í bílförmum.

Flautað er til leiks á morgun á óvenju kristilegum tíma, eða kl. 14:10. Það er því tilvalið að renna í Krikann eftir sunnudagssnúðinn í Bæjarbakaríi og styðja stelpurnar okkar til sigurs. Sannkallaður sunnudagur til sælu!

Við erum FH!
– Árni Freyr