Það er tvíhöfði á boðstólum í Krikanum næstkomandi sunnudag, er lið FH og HK leiða saman hesta sína í tvígang.

Bæði okkar lið ættu að koma á fínni siglingu inn í sína leiki. Strákarnir okkar gerðu frábæra hluti í vikunni er þeir lögðu gott lið ÍR að velli með miklum yfirburðum, og að sama skapi hafa stelpurnar okkar unnið fimm leiki í röð – nú síðast stórsigur gegn Fjölni um síðustu helgi.

Í fyrri leik sunnudagsins, sem hefst kl. 17, etja strákarnir okkar kappi við karlalið HK í Olísdeildinni.

Freysi verður í eldlínunni, að venju / Mynd: Jói Long

Nýliðar HK í Olísdeild karla hafa átt erfitt uppdráttar í byrjun leiktíðar. Kópavogsbúar, sem enduðu í 6. sæti Grill 66 deildarinnar á síðustu leiktíð, eiga enn eftir að sækja sitt fyrsta stig nú þegar 7 umferðir hafa verið leiknar. Yfirleitt hafa þeir þó ,,verið með“ í þeim leikjum, sem þeir hafa leikið. Að síðasta leik undanskildum, þar sem 11 marka tap gegn Fram varð raunin, hafa ekki verið nein burst í boði. Eins og oft er með nýliða, þá vantar stundum upp á herslumuninn. Það sem skilur á milli þess, að ná að standa í liðum og leggja þau að velli.

HK-ingar styrktu sig töluvert fyrir tímabilið, enda e.t.v. ekki vanþörf á. Bilið á milli Olísdeildar og Grill 66 deildar er mikið, og ég tala nú ekki um þegar þú endar um miðja deild í þeirri síðri. Það var sterkt hjá HK-ingum að sækja Davíð Svansson í markið, og mynda hann og Stefán Huldar Stefánsson gott og reynslumikið teymi á milli stanganna. Ásmundur Atlason og Pétur Árni Hauksson eru góðir handboltamenn og hafa báðir reynst hin fínasta styrking, og þá er Þorgeir Bjarki Davíðsson flottur hornamaður sem hefur sannað sig í deildinni á undanförnum árum.

Þrátt fyrir allar styrkingar er Blær Hinriksson, hinn uppaldni unglingalandsliðsmaður HK-inga, óumdeildur lykilmaður liðsins. Um gríðarmikið efni er að ræða, sem sýndi flotta leiki í fyrstu sex leikjum tímabilsins. Var hann atkvæðamestur HK-inga í þeim, með 28 mörk. Það er því skarð fyrir skildi, að hann skuli vanta fram að jólum hið minnsta, en hann varð fyrir vondum meiðslum á dögunum.

7 töp í fyrstu 7 leikjunum. Það má jafnvel segja, að HK-ingar hafi ekki átt 7 dagana sæla. En það er ekki í boði, að mæta til leiks með hangandi hendi. HK-ingar koma í Krikann og hafa nákvæmlega engu að tapa. Það gerir þá stórhættulega, og við verðum að mæta jafn vel til leiks hér og gegn ÍR á miðvikudag.

Verði strákarnir á sama tempói og í fyrri hálfleik í Austurberginu, þá hef ég engar áhyggjur af þeim. Hvílík veisluframmistaða. Þetta byrjaði allt í vörninni, þar sem gott lið ÍR var látið hafa fyrir öllu sem það gerði. Það hjálpaði Phil Döhler í markinu að detta í gang, sem og hann gerði svo um munaði (og hreinlega lokaði rammanum á köflum). Í sókninni keyrðu strákarnir grimmt á Breiðhyltinga, sem réðu engan veginn við þá kraftmiklu flóðbylgju. Öruggur fimm marka sigur staðreynd, sem hefði hæglega geta orðið stærri, enda leiddu FH-ingar með 11 mörkum í hálfleik. Yfirburðirnir voru algjörir. Hvaða lið ræður við okkur, þegar spilamennskan er svona?

Í seinni leik sunnudagsins, sem hefst kl. 19:30, mæta stelpurnar okkar liði HK U í Grill 66 deild kvenna.

Britney átti frábæra innkomu gegn Fjölni / Mynd: Brynja T.

Í fyrstu 6 umferðum Grill 66 deildarinnar hefur HK U sótt 2 sigra, en tapað 4 leikjum. Eru þær því í 6-8. sæti um þessar mundir, jafnar Fjölni og Stjörnunni U að stigum.

Sigrana sóttu HK-ingar í fyrstu tveimur umferðunum gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar, Fylki og Víkingi. Næstu fjórir leikir þar á eftir hafa tapast misilla – fóru þær t.d. illa út úr heimaleik gegn ÍBV U (13 marka tap) á meðan Selfyssingar máttu hafa öllu meira fyrir hlutunum (3 marka tap). Þá var leikur liðsins gegn Fjölni afar jafn.

Greinarhöfundur viðurkennir að hafa séð lítið (nánar tiltekið ekkert) af liði HK U á þessu tímabili, en sé tölfræðin skoðuð virkar einn leikmaður afgerandi. Það er hin efnilega Sara Katrín Gunnarsdóttir (f. 2002), en hún hefur skorað 37 mörk í fyrstu 6 leikjum liðsins. Þá hefur Ingibjörg Gróa Gunnarsdóttir spilað vel í þeim leikjum sem hún hefur átt með HK U til þessa, tveimur talsins, en samanlagt hefur hún átt 12 mörk í þeim leikjum. Hvort hún tekur þátt í leik sunnudagsins verður að koma í ljós, en hún spilar nú þegar rullu í liði HK í Olísdeildinni.

Líkt og áður hefur komið fram koma stelpurnar inn í þennan leik á miklu skriði. 5 leikir hafa unnist í röð, og hefur spilamennskan öll verið á uppleið. Síðasti leikur, gegn Fjölni, var e.t.v. sá besti. Varnarleikur og markvarsla voru í toppmálum, og þá fóru stelpurnar að finna lausnir á góðri vörn Fjölnis þegar leið á leikinn. Sérlega gleðilegt var, að sjá Emblu Jónsdóttur snúa aftur á völlinn síðastliðinn laugardag. Leikstjórnandinn knái hefur verið fjarverandi það sem af er tímabili vegna hnémeiðsla, en er hún nú öll að koma til og náði að spila hluta úr leiknum með fínum árangri. Gaman verður að sjá hana koma inn í meiri mæli á næstu vikum. Og talandi um næstu vikur – spili stelpurnar áfram eins og þær gerðu síðastliðinn laugardag, þá getur sigurhrinan vel orðið enn lengri en hún er nú þegar.

Eitt á við um báða þá leiki, sem fram fara á sunnudag: FH ætti að fara með sigur af hólmi. En þú vinnur ekki leiki fyrirfram.

Strákarnir voru tæpir, þegar Fjölnismenn mættu í heimsókn á dögunum. Þá voru nýliðarnir nálægt því að ná einhverju úr leiknum, og leiddu raunar lungann af honum. Stelpurnar máttu sætta sig við óvænt, en afar sannfærandi, tap gegn U-liði HK í fyrstu umferð í fyrra.

Við þurfum öll að vera á tánum. Ávallt.

Mætum öll í Krikann á sunnudag og styðjum okkar flotta fólk til sigurs í sínum verkefnum.

Við erum FH!
– Árni Freyr