Strákarnir okkar taka á móti Stjörnunni frá Garðabæ í kvöld, kl. 19:30. Um er að ræða leik í 10. umferð Olísdeildarinnar.

Lið Stjörnunnar hefur leikið undir getu það sem af er þessu tímabili, líkt og undanfarin ár. Sitja Garðbæingar í 10. sæti deildarinnar eftir fyrstu 9 umferðirnar með 5 stig, en í þeim leikjum hefur aðeins einn unnist til þessa.

Hvað það er sem veldur, er erfitt að segja til um. Liðið er, og hefur verið, vel mannað. Fyrir þetta tímabil sóttu Stjörnumenn til að mynda feita bita í þeim Tandra Konráðssyni og Ólafi Bjarka Ragnarssyni – tveimur leikmönnum, sem áttu stóran þátt í því að tryggja HK-ingum Íslandsmeistaratitilinn í Krikanum 2012, miður sælla minninga. Þá fengu þeir Andra Þór Helgason, hinn öfluga hornamann, til liðs við sig frá Fram, og svo má áfram telja. Meiðsli skýra gengið að einhverju leyti, en segja ekki alla söguna. Stjarnan á að geta gert betur, og það vita þeir manna best sjálfir sem eru þar innanbúðar.

Mikil óheppni hefur einkennt leik Garðbæinga síðustu misserin, þar sem þeir hafa oft verið nærri því að tryggja sér sigra en hafa gloprað því niður á síðustu stundu. Alræmt er orðið, hvernig síðasti leikur Stjörnunnar fór. Þriggja marka forysta Garðbæinga gegn Fram, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiktímanum, rann þar út í sandinn. Leiknum lauk með jafntefli, sem vafalaust var líkt og tap í augum þeirra bláklæddu. Í leik þar á undan, á útivelli gegn Selfossi, stóðu Stjörnumenn vel í Íslandsmeisturunum og hefðu vel geta landað sigri, en töpuðu þó að lokum.

Ágúst Birgisson skoraði 5 mörk fyrir norðan í síðustu umferð / Mynd: Jói Long

Að lokum mun stíflan eflaust bresta. Það gerðist í fyrra. Garðbæingar gátu lítið fram í nóvembermánuð, en eftir það fór allt upp á við. Gæðin í herbúðum þeirra gera þeim þetta kleift. Við þurfum að gera vel, og við þurfum að mæta 100% til leiks – annars gætum við allt eins verið sprungan sem veldur stíflubrestinum.

Frammistaða á borð við þá sem FH-liðið bauð upp á í síðasta leik, gegn KA fyrir norðan, mun ekki duga til. Það eru hreinar línur.

Sá leikur er í baksýnisspeglinum. FH-liðið hefur fengið viku til að læra af því sem miður fór, og til að peppa sig upp í að sækja tvö stig sem nauðsynleg eru til að halda í við liðin á toppi deildarinnar. Og burtséð frá öllu sem við kemur því, að elta eitthvað toppsæti, þá viljum við sjá annað og meira.

Það á ekki að vera okkur hjartans mál, að FH-liðið sé á toppi deildarinnar um þessar mundir. Það gefur lítið þegar uppi er staðið. Hins vegar viljum við sjá stíganda, og bætingar. Að liðið sé betra frá leik til leiks, og toppi síðan á réttum tíma. Sannfærandi frammistaða og sigur gegn Stjörnunni væru ágætis byrjun.

Mætum öll á völlinn og styðjum strákana okkar í baráttunni í kvöld. Höldum þessum tveimur stigum eftir heima!

Við erum FH!
– Árni Freyr