Stelpurnar okkar sýndu enn og aftur úr hverju þær eru gerðar, er þær lögðu lið ÍR að velli í Austurberginu í gærkvöldi. Þó ekki vegna þess að þær rúlluðu yfir andstæðing, eins og oft hefur verið í vetur – þvert á móti vegna þess, að þær mættu mótlæti en sigruðust á því.

Heimastúlkur í ÍR leiddu nefnilega nánast allan leikinn. Staðan í hálfleik var 9-8, Breiðhyltingum í vil, og höfðu stelpurnar okkar ekki verið að spila sinn besta leik.

Áfram leiddu ÍR-ingar, allt þar til stutt var til leiksloka. Þegar um 7 mínútur voru eftir var tveggja marka munur á liðunum, 20-18, og ljóst að FH-stelpur þyrftu að taka á honum stóra sínum.

Fanney fór fyrir FH-liðinu – hvað eru mörg F í því? / Mynd: Brynja T.

Og það gerðu þær.

Lokakaflann unnu okkar stelpur, 2-5, og þar með leikinn. 22-23 voru lokatölur, stelpunum okkar í vil, sem tryggðu sér þar með gríðarlega mikilvæg 2 stig. Þessi stig urðu þess valdandi, að forskot stelpnanna í 2. sætinu jókst í 3 stig, þar sem Selfyssingar misstigu sig í umferðinni.

Markahæst stelpnanna okkar að þessu sinni var Fanney Þóra Þórsdóttir með 7 mörk, og þá skoraði Emilía Ósk Steinarsdóttir 5.

Næsti leikur FH er á sunnudag, þegar Fjölniskonur mæta í heimsókn í Krikann. Það voru einmitt þær sem lögðu Selfyssinga að velli í umferðinni sem leið, með frábærum endaspretti. Þar er því um að ræða verkefni sem við verðum að mæta 100% klár í. Nánar um leikinn þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 7, Emilía Ósk Steinarsdóttir 5, Aníta Theodórsdóttir 4, Arndís Sara Þórsdóttir 3, Britney Cots 2, Embla Jónsdóttir 1, Ragnheiður Tómasdóttir 1.