Lið FH getur gengið hnarreist frá viðureign kvöldsins í kvöld, þrátt fyrir tap á heimavelli gegn KA/Þór. Herslumuninn vantaði uppá, að stelpurnar okkar tækju stig eða tvö út úr leik sínum gegn gífurlega sterku liði, sem spáð hefur verið góðu gengi í vetur. Enn er liðið án stiga, en verði framhaldið í takt við leik liðsins í kvöld verður brátt breyting þar á.

Britney Cots fór á kostum í liði FH í fyrstu tveimur umferðum Olísdeildarinnar, og upplegg þjálfara KA/Þórs í leiknum bar þess merki. Strax frá fyrstu mínútu var Britney tekin úr umferð, með það að markmiði að gelda sóknarleik FH-liðsins. Hafi einhver haldið að þar með væri leikurinn unninn, var sá hinn sami að misskilja.

Frábær Hrafnhildur Anna á bak við frábæra FH-vörn / Mynd: Brynja T.

FH-stelpurnar spiluðu frá fyrstu mínútu frábæra vörn og á bak við hrausta vörn liðsins var Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir í fantaformi. Í sókninni þurftu stelpurnar að aðlagast breyttum aðstæðum í tvígang – fyrst þegar það kom á daginn að Britney átti ekki að fá að vera með í leiknum, og svo aftur þegar Emilía Ósk Steinarsdóttir meiddist á hendi. Síðarnefnda atvikið gerðist eftir innan við 10 mínútna leik og var óumdeilanlega mikið áfall, enda er Emilía algjör lykilmaður og ekki síst sóknarlega. Hún átti ekki afturkvæmt á völlinn í kvöld.

Í mótlætinu stóðu stelpurnar okkar sterkar. Þrátt fyrir reglulega (og misgáfulega) brottrekstra sem FH-liðið mátti þola var jafnt á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik. FH-liðið barðist varnarlega og sýndi þolinmæði í sóknarleiknum. Það var ekki fyrr en á síðustu 5 mínútum fyrri hálfleiks sem að gestirnir að norðan náðu að skilja sig frá stelpunum okkar, en í hálfleik var munurinn á liðunum 3 mörk. Hálfleikstölur 9-12, KA/Þór í vil.

Seinni hálfleikur fór ekki nægilega vel af stað hjá okkar konum, en fyrstu tvö mörk hans voru Norðankvenna og forystan því orðin 5 mörk. Þeirri forystu héldu þær allt þar til þegar korter var liðið af síðari hálfleik, og staðan því orðin ansi erfið fyrir FH-liðið.

En að gefast upp? Ekki að ræða það. Þarna stigu stelpurnar okkar upp og sýndu hvað er í þær spunnið. Á síðustu fjórtán mínútum leiksins skellti FH-liðið í lás og fékk aðeins á sig 2 mörk. Á sama tíma voru stelpurnar að finna lausnir á vörn Norðankvenna, sem leiddi til þess að þegar þrjár mínútur voru til leiksloka munaði aðeins einu marki á liðunum.

Nær komst FH-liðið því miður ekki að þessu sinni. Hin margreynda Martha Hermannsdóttir skoraði það sem reyndist vera lokamark leiksins á 57. mínútu, og urðu því lokatölur 19-21 KA/Þór í vil. Naumt tap stelpnanna gegn einu besta liði deildarinnar staðreynd.

Hildur var markahæst FH-stelpna í kvöld, og stóð sig þar að auki afar vel varnarlega / Mynd: Brynja T.

Engin stig að þessu sinni, en þrátt fyrir það geta FH-stelpur tekið mun meira jákvætt en neikvætt úr þessum leik, að mínu mati. Það gerir hinn almenni stuðningsmaður í það minnsta. Baráttan og liðsheildin skein af stelpunum okkar allan leikinn. Það sást á varnarleiknum og öllu látbragði okkar liðs. Leikhléunum. Hvernig þær fögnuðu, hvernig þær hvöttu hverja aðra áfram. Þess er ekki langt að bíða að þær landi stigum í deild þeirra bestu.

Í jöfnu og góðu FH-liði stóð einn leikmaður þó upp úr. Hrafnhildur Anna fór hreinlega á kostum á milli stanganna í kvöld og varði 21 skot, en það gerir 50% hlutfallsmarkvörslu. Þar að auki skoraði hún 1 mark, þvert yfir völlinn. Með frammistöðu sinni fékk Hrafnhildur 10 í einkunn í forritinu HB Statz, fyrst allra leikmanna á þessu tímabili. Sú hefur stimplað sig inn með glæsibrag.

Hildur Guðjónsdóttir var markahæst stelpnanna að þessu sinni með 4 mörk, en hún lék einnig afar vel varnarlega. Emilie Jakobsen og Britney Cots voru næstar henni með 3 mörk. Þá ber að nefna þátt Anítu Theodórsdóttur í varnarleik FH-liðsins, en henni var falið það verkefni halda niðri besta leikmanni KA/Þórs þegar leið á leikinn. Það gerði hún með stakri prýði.

Nú bíður stelpnanna okkur nokkuð löng pása. Næsti leikur þeirra er ekki fyrr en 10. október, en þá mæta þær sterku liði HK í Kórnum. Fram að þeim leik getur FH-liðið byggt á góðri frammistöðu kvöldsins í kvöld, og munu þær eflaust mæta tvíefldar til leiks þegar stundin rennur upp. Með blóð á tönnum og viljann að vopni.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Mörk FH: Hildur Guðjónsdóttir 4, Emilie V. Jakobsen 3, Britney Cots 3, Heiðdís Rún Guðmundsdóttir 2, Fanney Þóra Þórsdóttir 2, Aþena Arna Ágústsdóttir 2, Andrea Valdimarsdóttir 1, Arndís Sara Þórsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 21 (50%).

Leikurinn var í beinni útsendingu á YouTube. Hann má sjá hér: