Í dag er stór dagur. Loks fá stelpurnar okkar tækifæri til að spreyta sig á heimavelli í Olísdeildinni. Í fyrsta sinn í fjögur ár hýsir Kaplakriki leik í deildinni. Það er langur tími, sérstaklega á mælikvarða félags eins og okkar.

Andstæðingurinn í þessum fyrsta heimaleik okkar er ekki af verri endanum. Gífurlega sterkt lið KA/Þórs mætir til leiks í Krikann, en fyrir tímabil var þeim spáð góðu gengi. Skyldi engan undra, norðankonur bjuggu yfir góðum kjarna fyrir en bættu nú í sumar við sig landsliðsskyttu – einni af Íslands allra bestu leikmönnum. Rut Arnfjörð Jónsdóttir gengur ekki til liðs við félag, sem ætlar sér eitthvað annað en toppbaráttu í þessari deild. Hún er of góð, og hefur átt of góðan feril, til þess.

Þær munu mæta dýrvitlausar til leiks, trúið mér. Eitt stig eftir tvo leiki er ekki það sem þær höfðu í huga fyrir mót. Jafntefli í Eyjum, tap gegn Stjörnunni – sjöunda sætið fyrir leik dagsins í dag. Óásættanlegt í þeirra huga. Þær ætla sér ekkert nema sigur, en þar er okkur að mæta.

Þetta er hægt. En við þurfum okkar besta leik, og okkar besta stuðning.

22 mörk í 2 leikjum! Britney hefur spilað sig inn í landslið Senegala með frábærum frammistöðum / Mynd: Brynja T.

FH-stelpur hafa vissulega tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni, en mörg jákvæð teikn hafa verið á lofti. Stelpurnar héldu í við feiknasterkt lið Stjörnunnar lengi vel í fyrsta leik, og hefðu vel getað lagt Hauka að velli á laugardag. Þær hafa sýnt þess merki, að þær séu tilbúnar til að slást á stóra sviðinu.

Betur má ef duga skal, eins og staðan þó sýnir. Við þurfum aðeins meira, til að krækja í okkar fyrsta stig og fyrsta sigur. Við þurfum að sjá aðeins fleiri stíga upp og hrista af sér sviðsskrekkinn. Hví ekki hér? Hví ekki núna?

Hvatinn ætti svo sannarlega að vera til staðar. Við viljum sigur og stig á töfluna. Við erum á heimavelli, og hann verðum við að verja. Þá er okkur það ferskt í minni þegar liðin mættust síðast. Norðankonur léku okkur grátt á Opna Norðlenska mótinu fyrir fáeinum vikum síðan, og slíkt gleymist seint. Sama hvort um æfingaleik er að ræða eða ekki, slíkt svíður samt þegar um keppnismanneskjur er að ræða.

FH-vörnin verður að vera upp á sitt besta í dag! / Mynd: Brynja T.

Með sterkum varnarleik og öguðum sóknarleik geta stelpurnar okkar lagt KA/Þór að velli. Fækki þeim sóknum sem ekki lýkur með góðu skoti, eru stelpurnar í séns. Það þarf kaldan haus en heitt hjarta.

Við höfum að sjálfsögðu okkar rullu til að spila. Það er okkar hlutverk, í samvinnu við stelpurnar, að búa til heimavöll sem önnur lið óttast að sækja heim. Mætum og veitum þeim alvöru stuðning, því slíkt getur skilið á milli. Þær munu berjast. Berjumst með þeim.

Við erum FH!

– Árni Freyr