Stelpurnar okkar fengu stóran skell í kvöld, er feiknasterkt lið Vals kom í heimsókn í Kaplakrika. Segja má að þær hafi aldrei séð til sólar í leiknum. Gestirnir frá Hlíðarenda fóru inn í hálfleik með 8 marka forskot, 7-15, og urðu lokatölur 22 marka tap, 15-37.

Margt vantaði upp á í leik FH-liðsins, og það má ekki gegn góðu liði líkt og því sem við mættum í kvöld. Sóknarleikurinn gekk erfiðlega og þá var vörnin ekki jafn þétt og oft hefur verið í vetur. Á báðum endum vallarins var augljóst, að Britney Cots var sárt saknað, en hún er fjarverandi um þessar mundir vegna meiðsla. Á bak við vörnina stóð Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir vaktina hins vegar ágætlega, en hún varði 13 skot í leiknum.

Fanney átti þokkalegan leik í kvöld / Mynd: Brynja T.

Markahæst FH-stelpna í leiknum var Emelía Ósk Steinarsdóttir, en hún skoraði 6 mörk. Þá stóð Fanney Þóra Þórsdóttir vel fyrir sínu á báðum endum vallarins, skoraði 5 mörk og var besti varnarmaður FH-liðsins. Hún var með hæstu einkunn FH-kvenna úr leiknum í tölfræðiforritinu HB Statz.

Næsti leikur stelpnanna er á laugardag, en þá mæta þær deildar-og bikarmeisturum Fram í Safamýri. Búist er við að sá leikur verði sýndur í vefvarpi þeirra Framara, og verður tengill á leikinn auglýstur á síðu okkar á Facebook þegar að því kemur.

Við erum FH!

Mörk FH: Emelía Ósk Steinarsdóttir 6, Fanney Þóra Þórsdóttir 5, Sigrún Jóhannsdóttir 2, Aníta Theodórsdóttir 1, Freydís Jara Þórsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 13 (26,5%)