Besta lið landsins, Fram, reyndist stelpunum okkar ofurefli í dag. Þær máttu sætta sig við stórt tap, 41-20, í leik liðanna sem fram fór í Safamýri.

FH-liðið hélt ágætlega í við geysisterkt Fram-lið fyrstu 20 mínútur leiksins, en eftir því sem leið á tók verkefnið að þyngjast. 8 marka munur var á liðunum í hálfleik, 19-11, og jókst sá munur í 12 mörk fljótlega eftir að leikar hófust á ný.

Britney sneri aftur eftir meiðsli í dag / Mynd: Brynja T.

Stelpurnar tóku þá ágætis kipp og minnkuðu muninn aftur í 10 mörk þegar 20 mínútur voru eftir. Var munurinn 10-12 mörk þar til um 10 mínútur voru til leiksloka, en þá opnaðist fyrir allar flóðgáttir. Fram-liðið sallaði inn mörkum á lokakaflanum og varð niðurstaðan að lokum 21 marks tap, líkt og áður var greint frá.

Emilía Ósk Steinarsdóttir var markahæst stelpnanna okkar í dag með 9 mörk, og næst henni var Britney Cots með 8 mörk. Sigrún Jóhannsdóttir bætti við 2 mörkum, og Fanney Þóra Þórsdóttir 1. Í markinu varði Írena Björk Ómarsdóttir 7 skot.

Næsti leikur stelpnanna okkar er 30. janúar, en þá mætir sterkt lið ÍBV í heimsókn. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!