FH-stelpur máttu sætta sig við vont tap í fyrsta leik Olísdeildarinnar eftir þriggja mánaða hlé, en hann fór fram í dag. Andstæðingurinn að þessu sinni var sterkt lið HK, og var leikið á heimavelli þeirra í Kórnum.

Heimaliðið hóf leikinn betur og var komið í 4-0 forystu eftir fjögurra mínútna leik. FH-stelpur komu sér þó í gang fljótlega, og söxuðu á forskotið hægt og rólega. Raunar var gangurinn svo góður í liði FH, að það kom sér á endanum framúr. Þannig fór svo að stelpurnar okkar fóru inn í hálfleikinn með eins marks forskot, 14-15, sem vel mátti við una.

Síðari hálfleikur var hins vegar martraðarkenndur. Það tók tæpar 10 mínútur fyrir stelpurnar okkar að skora mark í síðari hálfleik, en á sama tíma höfðu heimakonur skorað 7 mörk. 7 mínútur liðu frá fyrsta marki hálfleiksins til þess næsta, en á meðan bættu HK-ingar í. Við gerðum of mörk mistök sóknarlega, og fyrir það var okkur refsað harkalega. Á endanum landaði Kópavogsliðið öruggum 12 marka sigri, 33-21. Dapurleg niðurstaða á leik, sem lofaði svo góðu framan af.

Emilía Ósk varð markahæst okkar stelpna með 10 mörk / Mynd: Brynja T.

Í liði FH var Emilía Ósk Steinarsdóttir markahæst með 10 mörk, en næst á eftir henni kom Ragnheiður Tómasdóttir með 4 mörk. Gaman var að sjá Röggu snúa aftur á gólfið, en hún bjó erlendis fyrri hluta móts. Í markinu varði Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 11 skot.

Næst á dagskrá er feiknasterkt lið Vals, en það kemur í heimsókn í Krikann næstkomandi þriðjudag (19. janúar). Stelpurnar verða að byggja á góðu köflunum úr leik dagsins og læra af þeim slæmu, og þá er aldrei að vita hvað gerist í þeim leik. Leikið verður fyrir luktum dyrum, en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á YouTube-rás okkar FH-inga. Tengill verður settur á Facebook-síðu okkar þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 10, Ragnheiður Tómasdóttir 4, Andrea Valdimarsdóttir 2, Aþena Arna Ágústsdóttir 1, Arndís Sara Þórsdóttir 1, Emma Havin Sardarsdóttir 1, Aníta Theodórsdóttir 1, Sigrún Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 11 (25%), Írena Björk Ómarsdóttir 1 (100%).

Leikur FH og HK var í beinni á YouTube-síðu HK-inga. Sjá má leikinn hér:

https://youtu.be/FqzKa_EaPnY