Íþróttastarf er og hefur verið mikilvægt hverju samfélagi og starfið hjá Haukum hefur verið mikilvægt í flóru íþróttanna hér í Hafnarfirði. Í áranna rás hefur fjöldi dug- og kraftmikils fólks starfað í félaginu og komið félaginu í fremstu röð hér á landi í hinum ýmsu greinum íþróttanna, við FH-ingar þökkum samstarfið í áranna rás um leið og við þökkum fyrir allar þær rimmur sem við höfum háð.

Keppni í íþróttum er af hinu góða og þar hafa Haukarnir eins og við FH-ingar jafnan lagt allt í af miklum drengskap. Að keppni lokinni ber okkur að vinna saman að málefnum íþróttanna, samtakamátturinn mikilvægur, en þar eins og í öðru þarf að vinna af drengskap og heiðarleika, halda staðreyndum til haga. Við sem íþróttasamfélag í Hafnarfirði þurfum að koma sameinuð fram í „baráttunni“ við yfirvöld, leggja fram kröfur okkar af sanngirni og huga að hagkvæmni varðandi rekstur og framkvæmdakostnað þannig náum við árangri öllum til heilla.

Í eðlilegu árferði hefði undirritaður flutt kveðjur úr Krikanum í glæsilegri veislu á Ásvöllum eins og  raunin var 2011, sú veisla lifir í minningunni. Haukamenn nær og fjær til hamingju með aldurinn, áratugina níu, og megi gæfan fylgja ykkur næstu áratugina.

Áfram Haukar

Fimleikafélag Hafnarfjarðar

Viðar Halldórsson, formaður