Ágúst Elí Björgvinsson framlengir við FH

Ágúst Elí Björgvinsson framlengir við FH

Ágúst Elí sem átti frábæra innkomu í lið FH á nýliðnu keppnistímabili skrifaði í kvöld undir nýjan þriggja ára samning við félagið. Ágúst Elí mun því verja mark FH næstu árin og taka við keflinu af Daníel Frey Andréssyni sem er nýlega búinn að skrifa undir samning við danska úrvalsdeildarliðið SönderjyskE.

Ágúst Elí sem er einn efnilegasti handknattleiksmarkmaður landsins átti tvö ár eftir af samning sínum en ákvað að framlengja um eitt ár til viðbótar og er því samningsbundinn FH til ársins 2017.

” Drengurinn sýndi þvílíkann karakter þegar hann kom að máli við okkur í stjórninni og vildi bæta við ári í samning sinn, hollusta hans við félagið er mikið, hann er með risastórt FH hjarta. Ágúst Elí ætlar sér langt í framtíðinni og stefnir á atvinnumennsku. FH mun vera honum til halds og trausts í þeim efnum og hjálpa honum að ná þessu markmiði sínu. Það er ekkert leyndarmál að stefna okkar hjá FH er að hjálpa okkar leikmönnum erlendis í atvinnumennsku hafi þeir áhuga á því. Það er orðið árlegt að leikmaður FH fer í atvinnumennskuna, við erum öll stolt af því ” segir Ásgeir Jónsson formaður hkd FH.

Ágúst Elí sem er markmaður U-20 ára landsliðs Íslands var kallaður inn í æfingahóp A landsliðsins nú fyrir stuttu og því framtíðin björt hjá þessum metnaðarfulla strák. Verkefni hans næstu árin er verðugt, að fylla skarð Daníels Freys sem hefur verið einn besti markmaður Íslandsmótsins undanfarin ár.

Aðrar fréttir