Silja Úlfarsdóttir, hlaupakona úr FH, hefur fengið inni í Clemson-háskólanum í S-Karólínu í Bandaríkjunum.

Silja heldur utan eftir áramót, en hún mun einnig keppa með frjálsíþróttaliði skólans. Fyrir vikið fær hún felld niður námsgjöld.

Kærasti Silju, Vignir Stefánsson, landsliðsmaður í júdó, fer með Silju og sest einnig á skólabekk í Clemson. Silja sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði um tíma haft áhuga á að komast til náms í Bandaríkjunum.Stóðu henni nokkrir skólar til boða. „Upphaflega var ég að spá í skóla í Kentucky, en síðan hætti þjálfarinn sem þar var og þá hætti ég við og fékk inni í öðrum skóla sem er í Norður- Karólínu.

Þá hafði umræddur þjálfari samband við mig á nýjan leik, þá var hann kominn til Clemson. Eftir það ákvað ég að elta þjálfarann,“ segir Silja, sem er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari unglinga í spretthlaupum.