Snemma í gærmorgun, alltof snemma fyrir suma, eða klukkan 7:00 mættu 24 mjög svo „morgunhressir“ krakkar úr 12-14 ára hópnum upp á Kaplakrikavöll. Framundan var langur dagur. Hann hófst á léttu morgunskokki og teygjum, fólkið sem var mætt á völlinn var stórhissa á þessu öllu saman. Eftir það fórum við inn í hitann og fengum okkur morgunmat, en hver og einn kom með sitt nesti.
Þá tölti hópurinn af stað og upp í strætó, hoppuðum út í Laugardalnum þar sem við tókum klukkutíma langa æfingu á þjóðarleikvangnum. Að henni lokinni fóru allir í sund þar sem krakkarnir fengu frjálsan tíma til að leika sér í rennibrautunum og boltaleikjum.
Á svona löngum og erfiðum dögum skiptir öllu máli að nærast vel og því var næst haldið á Salatbarinn í hádegismat. Strákarnir í hópnum áttu nú ekki til orð yfir því að þeir ættu að fara að borða eitthvað kál, en þeir voru nú ekki lengi að gleyma þessari hneykslun sinni og tróðu sig út af allskonar góðgæti sem þeir fundu á hlaðborðinu. Að vísu var konfektskálin óvenju fljót að tæmast í þessu hádegi.
Eftir matinn, staulaðist pakksaddur hópurinn út í næsta strætóskýli og fórum við til baka í Fjörðinn. Við hvíldum okkur smá áður en við tókum síðdegisæfingu sem tók um einn og hálfan tíma. Þá var nú komin ansi mikil þreyta í hópinn þannig að krakkarnir hoppuðu í heita sturtu og skiptu um föt. Þegar því var lokið beið þeirra pizzuveisla, reyndar hefur aldrei þurft að panta jafn fáar pizzur þar sem flestir voru enn pakksaddir eftir kálið. Um kvöldið var svo mætt í Smárabíó og horft á myndina Dodgeball. Ég býst svo við að allir hafi verið fljótir að sofna um kvöldið!!

En þessi langi og erfiði dagur var mjög skemmtilegur. Krakkarnir voru til mikillar fyrirmyndar, hegðuðu sér allsstaðar vel og tóku vel á því á æfingunum. Öllum fannst þetta mjög gaman og þetta verður örugglega gert aftur í framtíðinni. Um að gera að reyna að nota þetta verkfall í eitthvað gott.

kveðja Ævar þjálfari