4. flokkurinn er einstaklega efnilegur flokkur og hefur verið sigursæll í mótum vetrarins og má segja að stelpurnar hafi sett punktinn yfir i-ið með Íslandsmeistaratitlinum í dag.

Stelpurnar byrjuðu daginn á að leggja Selfoss 5-0 og áttu stelpurnar frá mjólkurbænum aldrei möguleika. Það var heldur engin humarhátíð hjá stelpunum í Sindra frá Hornafirði en FH-ingar lögðu þær 2-0 í hörkuleik. Í síðasta leik riðilsins voru Suðurnesjamenn lagðir sannfærandi 3-0.

Í undanúrslitum mættu FH-ingar ákveðnum Þórsstelpum og úr varð háspennuleikur. Ég tel nokkuð víst að Einar Ólafsson endurskoðandi og faðir framherjans knáa Sigrúnar Ellu hafi stikað nokkrar ferðir á pöllunum enda spennan nánast óbærileg. Þórsstelpur leiddu tvisvar 1-0 og 2-1 en FH-stelpur jöfnuðu jafnharðan og tryggðu sigurinn með síðustu spyrnu leiksins er Alma setti boltann efst í markhornið af löngu færi og kom FH í úrslitaleikinn.

Í úrslitaleiknum mættu FH-ingar Breiðabliki hinu gamla og núverandi stórveldi kvennaknattspyrnunnar. Það var samt lið hinnar rísandi sólar sem hafði betur 5-1. Blikar skoruðu fyrsta markið en FH-ingar jöfnuðu fyrir hlé. Eftir hlé héldu FH-stelpum engin bönd og að lokum stóðu þær uppi sem Íslandsmeistarar innanhúss 2006.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá stelpunum og þjálfara þeirra Þórarni B. Þórarinssyni en honum innan handar er sem fyrr Davíð Arnar Stefánsson þjálfari 3. flokks kvenna. Þeir félagar eru reyndar nefndir af gárungunum Don Qiote og Sansa Pancho.

En það er ljóst að flotinn ósigrandi siglir áfram seglum þöndum.