Til að gera langa sögu stutta þá áttu strákarnir ekki góðan dag. Þeir létu hægan leik heimamanna svæfa sig lengst af, en vöknuðu þó þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum og náðu öðru stiginu heim í Krikann. Svo sannarlega ekki þau úrslit sem að þeir ætluðu sér en deildin er ennþá galopin og eins og staðan er í dag þá er einungis eitt stig í þetta umtalaða 8. sæti. En leikirnir verða nú alltaf mikilvægari og mistökin dýrkeyptari.

Ekki er hægt að taka neinn út og hrósa fyrir leik sinn í dag en þó verður ekki litið framhjá góðri innkomu Pálma síðustu 10 mínúturnar.  Einnig verður ekki hjá því komist að hrósa dómurum leiksins þeim Anton og Hlyn sem dæmdu leikinn afar vel.  Þeir félagar svöruðu harðri gagnrýni á dómgæsluna í vetur á réttan hátt.

Það þýðir ekki að gráta þennan leik meira, nú verða allir að snúa bökum saman og tryggja  þau stig sem nauðsynleg eru fyrir sæti í efstu deild að ári.

Næsti leikur meistaraflokks karla er á föstudaginn í Kaplakrika, þegar þórsarar heimsækja okkur. Þá verður þú FH ingur góður að mæta og öskra strákanna áfram, FH-ingar eru og eiga að vera „Traustir í meðbyr, tryggir í mótbyr“