Tilgangur fundarins var m.a. að efla samvinnu og samhug innan félagsins.
Ingvar Viktorsson, formaður FH, setti fundinn og ræddi m.a. um sterka stöðu FH, að félagið sé allsstaðar í fremstu röð og starfið í yngri flokkunum sé sérstaklega til fyrirmyndar.

Því næst tók til máls gamli landsliðsfyrirliðinn í knattspyrnu, Viðar Halldórsson, sem á sæti í framtíðarnefnd Kaplakrikasvæðisins. Viðar sýndi fundargestum drög að framtíðarskipulagi Kaplakrikasvæðisins þar sem m.a. er gert ráð fyrir þreföldun á búningsklefum, bættri félags- og skrifstofuaðstöðu, frjálsíþróttahúsi, lyftingarsal, yfirbyggðum stúkum við knattspyrnuvöll, aðstöðu fyrir skylmingafólk o.m.fl.
Ráðgert er að framkvæmdir geti hafist í haust og verði að mestu lokið haustið 2007.
Fundarmenn gerðu góðan róm að þeim teikningum sem fyrir liggja og greinilegt að spennandi tímar eru framundan í Kaplakrika.

Því næst tók Ingvar aftur til máls og þakkaði fyrir sig og aðalstjórn og setti Jón Þór Brandsson, yfirþjálfara yngri flokka í knattspyrnu, sem fundarstjóra þar sem ræða átti ýmis málefni tengd félaginu og fá skoðanir og sjónarhorn þeirra sem vinna á hverjum degi á akrinum; þjálfara og unglingaráðsfólks.

Jón Þór og Elvar Erlingsson, yfirþjálfari yngri flokka í handboltanum, stýrðu hópavinnu þar sem vinna átti eftir nokkrum punktum:

· Samvinna deilda

· Sameiginlegur þekkingargrunnur / gagnabanki

· Aðstaða félagsins

· Upplýsingaflæði / boðleiðir

· Stjórnun félagsins

· Námskrá /faglegt starf

· Félagsbúningur

Auk þess sem margt fleira bar á góma. Að lokinni hópavinnu gerðu fulltrúar hvers hóps grein fyrir þeirra hugmyndum og úr spunnust fjörugar umræður. Þessum hugmyndum verður komið á framfæri til aðalstjórnar FH til úrvinnslu. Kannski munu einhverjar af þessum hugmyndum líta dagsins ljós hér á síðunni!

Góðum fundi lauk laust fyrir klukkan 10 enda Jón Þór þekktur fyrir allt að því þýska nákvæmni. Fundarmenn gerðu veitingum í boði aðalstjórnar góð skil og héldu glaðir í bragði heim á leið í froststillu undir fullu tungli.