Það er skemmst frá því að segja að árangurinn var frábær í öllum liðum, þrátt fyrir gríðarleg forföll, en að undanförnu höfum við mátt þakka fyrir að hafa 20-25 stráka á æfingum, sem verður að teljast ansi lítið á þeim bænum! Þessi skaðræðis flensa sem hefur verið að ganga að undanförnu gerði okkur miklar skráveifur, þá hafa skólaferðir á Reyki í Hrútafirði staðið yfir að undanförnu, öðrum datt í hug að skella sér á fótboltaleiki í Englandi og svo mætti lengi telja!

En, strákarnir kunnu svo sannarlega að bregðast við svona mótlæti og þjöppuðu sér bara enn betur saman fyrir vikið. A-liðið okkar gerði sér lítið fyrir og vann alla sína leiki. Og þar sem þeir höfðu verið efstir að stigum fyrir mótið, þýddi þetta að þeir höfðu tryggt sér deildarmeistaratitilinn sem var rifinn á loft af drengjunum við mikinn fögnuð stoltra foreldra á laugardeginum. Bikarinn verður fín viðbót við það stórglæsilega bikarasafn sem við FH-ingar eigum í Krikanum.

B-liðið var varla svipur af sjón hvað mannskap varðar en tókst samt að ljúka mótinu með mikilli prýði. Strákarnir töpuðu 1 leik og gerðu eitt jafntefli, og enduðu því í 3. sæti á mótinu sem verður að teljast ansi góður árangur miðað við forföllin.

C-liðin okkar, FH1 og FH2, voru að þessu sinni saman í deild, eins og á fyrsta mótinu, og það var því ljóst að bræður myndu berjast! Eins og með B-liðið þá gerðu veikindi strákunum lífið leitt, en FH2 liðið þurfti að spila án varamanns allt mótið. FH1-liðið lenti í svipuðum vandræðum, en þar settu meiðsli strik í reikninginn, ásamt því að 2 leikmenn komust ekki fyrsta daginn í mótinu. FH1 enduðu í 4. sæti á mótinu, sem gefur þó engan veginn rétta mynd af getu þeirra, en svona er þetta stundum. FH2 hinsvegar unnu alla sína leiki og báru sigur úr býtum. Það dugði að vísu ekki til þess að vinna deildarmeistaratitilinn, en engu að síður er þetta stórglæsilegur árangur hjá piltunum, sem eins og áður segir þurftu að spila án varamanns allt mótið!

Þá er aðeins einu móti ólokið á þessu tímabili og fer það fram í lok Apríl. Nú ríður því á fyrir strákana að leggja enn harðar að sér við æfingar og klára þessa handboltavertíð með stæl. Við þjálfararnir þökkum drengjunum og ekki síst foreldrum þeirra fyrir frábæra helgi en það var gaman að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta og styðja við bakið á okkur.

Með FH-kveðju,

Sigursteinn Arndal, Hilmir Heiðar Lundevik og Árni Stefán Guðjónsson – þjálfarar 5.fl.ka í handknattleik.