Lið FH:

Róbert Örn Óskarsson
Guðmundur Sævarsson
Ármann Smári Björnsson
Tommy Nielsen (Hermann Albertsson 50.)
Freyr Bjarnason
Davíð Þór Viðarsson
Ásgeir Gunnar Ásgeirsson (Baldur Bett 60.)
Sigurvin Ólafsson
Ólafur Páll Snorrason (Atli Guðnason 80.)
Tryggvi Guðmundsson (f)
Allan Dyring

Það voru fjölmargir áhorfendur sem lögðu leið sína í Kaplakrika í kvöld en leikurinn fór fram á miðgrasinu sem hefur tekið við sér síðustu daga.

Valsmenn voru ögn skeinuhættari framan af fyrri hálfleik. Tommy Nielsen lék sinn fyrsta leik í 2 mánuði eftir hnémeiðsli og hann og Ármann Smári virtust ekki ná taktinum í miðri vörninni.

Þegar líða tók á hálfleikinn náðu FH-ingar yfirhöndinni og komust næst því að skora undir lok hálfleiksins þegar Freyr Bjarnason átti þrumuskalla í þverslá og niður.

Í upphafi seinni hálfleiks fór Tommy af velli og Hermann Albertsson kom í hans stað og fór í vinstri bakvörðinn og Freyr í miðvörðinn. Það var lítið um færi í leiknum og allt of fáir samleikskaflar en þeim meira um langspyrnur. Þá var dómarinn óhemju flautuglaður auk þess sem leikurinn tafðist óvenju oft vegna meiðsla leikmanna.

Það má segja að fátt markvert hafi gerst þar til Valsmenn skoruðu markið. Matthías fékk boltann á miðjum vallarhelmingi FH og fékk að leika óáreittur að vítateig þar sem hann skaut góðu skoti í hornið.

75. mínúta: 0-1 fyrir Val

Það sem eftir lifði leiks sóttu FH-ingar meira án þess þó að ógna marki Vals að nokkru ráði og Valsarar hömpuðu því meistarabikarnum að þessu sinni.

Leikurinn bar þess merki að þetta var fyrsti grasleikur liðanna og menn virtust ekki vilja taka neina áhættu og voru full ragir við að taka boltann niður og spila. Það er ekki hægt að segja að Valsmenn hafi verðskuldað sigurinn fremur en FH-ingar. Þetta var baráttuleikur og lítið um færi en markið féll Valsmegin að þessu sinni.

FH-ingar áttu í vandræðum með uppspilið og það var frekar lítið að gerast fram á við. Alltof margar hornspyrnur, aukaspyrnur og fyrirgjafir fóru beint í hendurnar á tröllinu í marki Vals, Kjartani Sturlusyni.
Það hefur oft verið sagt að langspyrnur eigi ekki vel við FH-inga og það sýndi sig í þessum leik. Ég er hinsvegar sannfærður að það lagast í næstu leikjum.

Það er erfitt að taka einhverja út úr í dag. Hinn ungi markvörður FH, Róbert Örn Óskarsson, var öryggið uppmálað og stóð vel fyrir sínu og svo fannst mér Freyr Bjarnason eiga ágætan leik í vörninni.