Leikskýrslu í leik A-liða má sjá hér.

Það var sannkallaður toppslagur sem boðið var upp á hjá A-liðum. Hart var tekist á í byrjun leiks og FH-ingar voru mjög ákveðnir. Ólafur Guðmundsson gaf tóninn með tveimur föstum tæklingum en Óli átti frábæran leik í vörn FH. 

Það voru þó Fylkismenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 14. mínútu. Eftir innkast slapp sóknarmaður Fylkis upp að endalínu og skaut föstum bolta að marki sem Tómas náði ekki að halda og Fylkismaður náði frákastinu og skoraði.

Fyrst eftir markið var sem nokkur skjálfti væri í FH-liðinu og Fylkismenn hefðu getað skorað í 1-2 skipti. Ekki bætti úr skák að hinn eldfljóti og sterki varnarmaður Hafþór Þrastarson haltraði út af á 27. mínútu en í hans stað kom hinn knái vinstrifótarmaður Hilmar Ástþórsson sem fór í vinstri bakvörðinn og stóð sig frábærlega.

En ekki leið á löngu þar til FH náði yfirhöndinni og sérstaklega var Magnús nokkur Stefánsson skeinuhættur og var með áætlunarferðir upp hægri vænginn. Á 32. mínútu braust Magnús glæsilega upp kantinn og sendi fastan, lágan bolta fyrir markið þar sem Stefan Mickael Sverrisson beið eins og hrægammur á markteig og skilaði boltanum í netið.

Í hálfleik var staðan 1-1 og FH-ingar nokkuð sáttir við sinn hlut varnarlega en það vantaði nokkuð á að boltinn gengi betur sem var nokkuð skiljanlegt miðað við allar breytingarnar á byrjunarliðinu.

Seinni hálfleikur var enn betri af FH hálfu sem náðu góðum tökum á leiknum. FH-ingar fengu fjölmörg skotfæri og aukaspyrnur en fóru illa að ráði sínu. Það var nokkuð gegn gangi leiksins að Fylkismenn náðu forystunni 16 mínútum fyrir leikslok. Fylkismenn unnu boltann á miðjunni og miðjumaður þeirra fékk að hlaupa með boltann óhindrað að vörn FH. Þarna áttu FH-ingar að sýna klókindi og brjóta á manninum og stöðva sóknina í fæðingu. Það hefði Diego Simone gert!

FH-ingar lögðu nú allt í sölurnar til að jafna leikinn og færðu miðvörðinn Ólaf Guðmundsson í sóknina en allt kom fyrir ekki. Fylkismenn innsigluðu sigurinn skömmu fyrir leikslok með marki úr skyndisókn og unnu því 3-1.

Þrátt fyrir tap var ég mjög ánægður með strákana. Þetta var jafn leikur og þeir lögðu sig alla fram, börðust um hvern einasta bolta og léku sérstaklega vel í seinni hálfleik. Það vantaði fjölmarga lykilmenn en strákarnir vita sem er að það er engin afsökun, þá verða bara aðrir að bæta við sig og það gerðu þeir en það datt ekki okkar megin.

Það eina sem ég er óánægður með er að við skildum fá þetta annað mark á okkur þegar við vorum að sækja og knýja á að vinna leikinn. Við þurfum að læra að sýna meiri klókindi og brjóta skynsamlega af okkur ef að svo ber undir. Eins náðum við ekki að nýta okkur fjölmörg skotfæri sem við fengum fyrir framan teiginn, hvort sem var úr aukaspyrnum eða frjálsum leik.

Leikskýrslu í leik B-liða má sjá hér.

Það er óhætt að segja að FH-ingar hafi ekki fengið óskabyrjun í leik B-liðanna á Fylkisvelli. Markvörður B-liðsins Tómas Orri Hreinsson var fjarri góðu gamni en hann lék með A-liðinu í fjarveru Arons Pálmarsonar.

Því var brugðið á það ráð að setja markaskorarann Ísak Bjarka Sigurðsson í markið en Ísak hafði nokkrum sinnum sýnt góð tilþrif með hanskana á æfingum. Ísak stóð fyrir sínu í markinu og verður ekki sakaður um mörkin sem bókstaflega rigndi inn á fyrstu mínútum leiksins. Eftir 6 mínútur voru Fylkismenn komnir í 4-0 og leikurinn varla byrjaður!

Tvö markanna voru glæsileg langskot sem lítið var hægt að gera við en önnur voru slæm frá sjónarhóli okkar FH-inga. Vörnin var álíka flöt og mynd Evrópubúa af jörðinni fyrir Kóperníkus. Hreinlega eins og gatasigti.

Það vildi okkur til nokkurs happs að Sævar Már Gústafsson, hinn gamalreyndi markvörður, var á hliðarlínunni og h