Leikskýrslu leiksins má sjá hér.

Það rigndi sem hellt væri úr fötu í Grafarvoginum og blaut suðvestanáttin kyssti vangann. Þar sem ég hafði nýséð Siggu sunnanátt spá því að lygna tæki með kvöldinu ráðlagði ég Aroni Pálmarsyni fyrirliða að velja með vindi ef hann ynni uppkastið sem hann og gerði.

Í fyrri hálfleik sótti FH stíft undan vindinum. Brynjar Benediktsson átti tvö góð skot sem markvörður Fjölnis hélt ekki en FH-ingar voru ekki á tánum að ná frákastinu. FH-ingum gekk samt ekki nógu vel að opna vörn Fjölnis og nýttu sér illa fjölmargar horn- og aukaspyrnur. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks náði Fjölnismenn góðri skyndisókn og náðu forystunni nokkuð gegn gangi leiksins.

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. Lognið sem ég var búinn að treysta á lét ekki á sér kræla, heldur herti vindinn. Fjölnismenn tóku enga áhættu en FH-ingar náðu alls ekki að láta boltann fljóta nógu vel á blautu og háu grasinu og leikurinn varð hálflert miðjumoð. Stundarfjórðungi fyrir leikslok skoruðu Fjölnismenn seinna mark sitt. FH-ingum mistókst að hreinsa almennilega frá eftir hornspyrnu og boltinn datt fyrir leikmann Fjölnis sem sendi boltann í netið frá markteig.

FH-ingar reyndu allt hvað þeir gátu að minnka muninn en mark Fjölnis var aldrei í stórkostlegri hættu.

Aðstæður voru afar erfiðar og það mátti fljótlega sjá að það lið sem næði að skora fyrr stæði með pálmann í höndunum. Þetta féll Fjölnismegin að þessu sinni. FH-ingar börðust vel en vantaði að halda boltanum betur innan liðsins, nýta breidd vallarins og skipta meira um kant.

Leiksskýrslu frá leik B-liðanna má sjá hér.

Leikur B-liðanna var furðulegur í meira lagi. Í fyrsta lagi þurftu strákarnir að bíða í rúmlega hálftíma eftir að dómarinn léti sjá sig og var hann þá einn á ferð, án línuvarða og þurftu varamenn liðanna að skiptast á að sjá um línuvörslu.

Fjölnismenn byrjuðu á að skora en Davíð Atli Steinarsson jafnaði metin fljótlega eftir góðan undirbúning Ísaks Bjarka. Ísak Bjarki bætti svo öðru marki við og FH-liðið leit bara nokkuð vel út. En Fjölnismenn skelltu tveimur mörkum á okkur og leiddu 3-2 í hálfleik. Öll mörk Fjölnismanna í fyrri hálfleik komu eftir hornspyrnur og var dekkningin vægast sagt glórulaus eins og Arnar Björnsson mundi segja.

FH-ingar virtust hálfsofandi í upphafi seinni hálfleiks og fyrr en varði var staðan orðin 6-2 fyrir Fjölni.
FH-ingar gáfust ekki upp og Stefán Þór Jónsson skoraði í öðrum leiknum í röð. Fylgdi vel inn sem vinstri útherji fyrirgjöf frá hægri kanti og skoraði með hægri við fjærstöng. Arnar Hólm Einarsson skoraði svo gott mark 5 mínútum fyrir leikslok með þrumuskoti af 40 metra færi. Úrslitin því 6-4 Fjölni í vil. Jafnfræði var með liðunum úti á velli en FH-ingar geta nagað sig í handabökin að hafa gefið 3 ódýr mörk í fyrri hálfleik.

Miðvikudaginn 21. júní mættu svo FH-ingar Breiðabliki á Smárahvammsvelli í Kópavogi.

Leikur A-liðanna var jafn og skemmtilegur og æsispennandi.
FH-ingar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti leikur Hákonar Hallfreðssonar á þessu Íslandsmóti og reyndar í rúma tvo mánuði en Hákon hefur átt við bakmeiðsli að stríða og verið frá keppni og æfingum nánast óslitið frá því í mars en lék sem sagt fyrri hálfleik í þessum leik
.
Ég lá heima að dæla í mig verkjatöflum og sötra vatn eftir hálskyrtlaaðgerð og komst því ekki í leikinn en eftir því sem aðstoðarþjálfarinn Elvar Quieros segir átti Hákon frábæra innkomu, stjórnaði spilinu og dreifði boltanum kanta á milli.

FH-ingar léku víst glæsilegan fótbolta en þrátt fyrir það skoruðu Blikarnir tvö mörk af ódýrara taginu. FH-ingum fé