Flokkurinn heldur úti 4 liðum eins og áður segir. A,B og tveimur C liðum. A og B liðið auk annars B liðsins fóru á nesið og léku gegn Gróttu í gríðarlegum vindi. Hitt C liðið lék heima gegn Breiðablik.

Það voru A liðs strákarnir sem hófu leikinn við erfiðar aðstæður. Mikill vindur gerði leikmönnum begga liða erfitt fyrir en hann blés beint á annað markið. Þessi vindur stoppaði þó ekki leikmenn FH-inga því þeir unnu mjög sanngjarnan sigur 3-1. Einar Karl Ingvarsson skoraði fyrsta markið og Orri Ómarsson bætti öðru við fyrir hlé. Það var svo Pálmi Sigurjónsson sem skoraði þriðja markið með skemmtilegri hælspyrnu í upphafi seinni hálfleiks – á móti vindunum!
Gróttumenn náðu svo að minnka muninn um miðjan seinni hálfleiks en sigur liðsins var nokkuð öruggur. Eftir leikinn sitja strákarnir efstir í riðlinum með 12 stig úr 4 leikjum og þurfa 1 stig úr síðustu leikjunum til að tryggja sig áfram.

B-liðið steig næst á sviðið og sigraði Gróttumenn 4-1. Í fyrri hálfleik skoruðu okkar menn 3 mörk gegn einu marki Gróttumanna. Það var Andri Jónasson sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábæra sendinu Jóns Júlíusar Haraldssonar innfyrir vörn Gróttumanna. Jón fór á kostum sem aftasti miðjumaður liðsins og skoraði einmitt annað mark leiksins með góður skoti. Tvíburabróðir Andra, Brynjar Jónasson skoraði þriðja mark FH í fyrri hálfleik með skoti af um 30 metra færi sem fór alveg uppvið þverslá. Glæsilegt mark.
Undir lok leiksins batt Ásgrímur Gunnarsson endahnútinn á góðan sigur strákanna með góðu marki eftir fallega sókn. Gríðarlegar framfarir hafa verið á liðinu frá því í fyrsta leik þessa móts en liðið sigraði Breiðablik mjög sannfærandi um síðustu helgi.

C-liðið kom svo og batt endahnútinn á góða ferð okkar á nesið með öruggum 10-2 sigri. Ég vona að leikmenn flokksins fyrirgefi mér það en ég man ekki nákvæmlega hverjir skoruðu hvað mörg mörk!! En leikur liðsins var mjög góður, leikmenn létu boltann vinna fyrir sig og því uppskáru þeir eins og þeir sáðu. Líkt og með B liðið okkar hafa leikmenn í báðum C-liðunum tekið miklum framförum í vetur, bæði sem einstaklingar og sem lið.

Á sama tíma lék hitt C-liðið okkar gegn Breiðablik á Kaplakrikavelli og sigraði 2-1 í hörkuleik. Birgir Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk liðsins. Undirritaður sá því miður ekki leikinn en veit af spurn að bárátta og vilji okkar mann skiluðu þeim sigri sem var sá fjórði á einni viku gegn Breiðablik í 4.flokki 🙂