Byrjunin í gærkvöldi lofar góðu fyrir framhaldið í vetur hjá stelpunum. Í fyrstu sókn braust Ragnhildur í gegn og kom okkar stúlkum í 1-0. Stjarnan tók svo frumkvæðið og komst í 1-4 og 2-5. Nokkuð jafnræði var með liðunum og um miðjan síðari hálfleik var staðan 5-9 fyrir Stjörnustúlkur og höfðu FH stúlkur farið illa með nokkur dauðafæri á þeim tíma, meðal annars skoti á línu og vítakasti. Þessu fylgdi mjög slæmur kafli hjá stelpunum þar sem Stjarnan raðaði inn hraðaupphlaupsmörkum eftir sóknarmistök FH-stúlkna. Staðan í hálfleik 8 – 22 fyrir Stjörnuna. Stjarnan jók pressuna enn frekar í byrjun seinni hálfleiks og raðaði inn hraðaupphlaupum. Lokatölur 13 – 39.

Það vakti athygli að þjálfari Stjörnunnar sá ekki ástæðu til þess að skipta leikmönnum inná fyrr en eftir um 50 mín. leik og keyrði stanslaus hraðaupphlaup á meðan FH lét alla leikmenn spreyta sig og stóðu ungu stelpurnar sem fengu tækifæri sig með sóma. Aðalsteinn þjálfari Stjörnunnar ætlar líklega ekki að tapa Íslandsmeistaratitillinum á markatölu !

Leikurinn var sannkölluð eldskírn fyrir stelpurnar. Baráttan og viljinn var sannarlega til staðar í þessum leik. Það sem upp á vantar er samæfing og úthald. Hafa verður í huga að þetta er nýtt lið sem Guðmundur Karlson hefur hafið uppbyggingu á í Kaplakrika. 10 leikmenn sem léku með liðinu á síðustu leiktíð hafa farið. Í liðinu eru leikmenn eins og Ebba og Dröfn sem ekki hafa leikið handbolta í tvö ár vegna barneigna og meiðsla, og þær þurfa tíma til þess að koma sér í gang. Einnig eru í liðinu ungar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki og þær þurfa tíma til þess að aðlagast leik í meistaraflokki. Nýju leikmennirnir, þær Gabriela, Erla og Guðrún, munu með tíð og tíma falla betur að leik FH liðsins og verða mikill styrkur fyrir liðið.

Það býr miklu meira í stelpunum en í gær og þær munu sýna okkar stuðningsmönnunum það í vetur þegar líður á. Spennandi verður að sjá hvaða framförum stelpurnar hafa tekið næst þegar leikið verður við Stjörnuna eftir 8 umferðir. Fyrstu leikirnir munu fara í að spila nýju liði saman og koma leikmönnum sem ekki hafa leikið lengi í sitt gamla form. Þegar það hefur tekist verður þetta FH lið í góðum málum!

Markaskor FH:

Birna 6 mörk

Ebba 1 mark

Erla 1 mark

Guðrún 1 mark

Ragnhildur 2 mörk

Arnheiður 2 mörk

Markvarsla:

Gabríela varði 14 skot