Það var mikið undir. Með sigri hefði FH hampað Íslandsmeistaratitlinum en Valsmenn þurftu öll þrjú stigin til að ná yfirhöndinni í baráttunni um titilinn.

Valsmenn komu mjög ákveðnir til leiks en þeir léku undan vindinum í fyrri hálfleik í átt að Álfaskeiðinu. FH-ingar voru gjörsamlega á hælunum og hélst afar illa á boltanum. Þessi hápressa Valsmanna átti þó ekki að koma FH-liðinu í opna skjöldu. Við máttum vita að þeir myndu pressa okkur hátt og við vitum að Helgi Sig leitar í svæðið á bak við Frey, vinstra megin við Tommy um leið og Valur vinnur boltann. FH-liðið var svo sannarlega ólíkt sjálfu sér í fyrri hálfleik. Boltinn gekk illa á milli manna, við náðum sjaldan að flytja boltann milli kanta og komumst bara engan veginn í takt við leikinn. Kannski hafði það áhrif að Valsmenn þurftu sigur og „höfðu engu að tapa“ eins og þeir sögðu sjálfir. A.m.k. voru FH-ingar hikandi í fyrri hálfleik og frumkvæðið var Valsmanna.