Á fimmta þúsund manns voru mættir í kalsaveðri í Krikann í gær. Valsmenn léku undan vindinum í fyrri hálfleik og það var strax ljóst að þeir komu vel stemmdir til leiks. Þeir pressuðu FH-inga hátt uppi á vellinum og heimamenn náðu engum takti í leik sinn. Við héldum boltanum illa og svo virtist sem menn væru hreinlega stressaðir. Þrátt fyrir það fengum við 2-3 góð færi í fyrri hálfleik. Fyrst átti Tryggvi frábært skot sem Kjartan varði og Matti Vill skaut yfir úr frákastinu. Stuttu seinna björguðu Valsmenn á línu frá Matthíasi Guðmundssyni. En gestirnir voru sterkari og eftir um hálftíma leik náðu þeir forystunni. Helgi sig fann svæði vinstra megin við Tommy sem fyrr og lék upp að endamörkum og sendi fastan bolta fyrir þar sem Baldur Aðalsteinsson kom aðvífandi og boltinn endaði í netinu með viðkomu í Guðmundi Sævarssyni, óverjandi fyrir Daða í markinu.

Í seinni hálfleik voru FH-ingar mun meira með boltann og héldu honum betur. Samt fannst mér vanta meira tempó og ákefð í leik liðsins. Við náðum illa að skipta boltanum milli kanta og hægri vængurinn, sem er yfirleitt beittur kuti í sóknarleik okkar, virtist lamaður. Við verðum að virkja Gumma betur í svona leik. Láta hann koma í framhjáhlaupin og koma með bolta fyrir markið. En reyndar náði Gummi sér ekki á strik frekar en flestir leikmenn liðsins.

Þrátt fyrir að vera miklu meira með boltann náðum við ekki að opna vörn Valsmanna. Atli Guðnason fékk tvö góð færi en Helgi Sigurðsson rak naglann í líkkistu FH-inga 10 mínútum fyrir leikslok eftir skyndisókn og innsiglaði 0-2 sigur Valsmanna.

Við verðum að kyngja því að nú er það ekki alfarið í okkar höndum hvort við verðum Íslandsmeistarar. Í þessum leik virtust Valsmenn einfaldlega vilja þetta meira hvernig sem á því stendur. En núna verðum við að rífa okkur upp og vinna Víkinga í síðasta leiknum. Það er eitthvað sem segir mér að feita konan hafi ekki sungið sitt síðasta.