FH leikur við HK í N1 deild kvenna í handbolta í dag. Í tilefni þess
var nýr markvörður liðsins Helga Vala Jónsdóttir tekin tali. Hún segir
að tilfinningin sé góð að vera komin í FH og
hlakkar þessi 22 ára gamli fyrrum markvörður Stjörnunnar til að takast
á við verkefni vetrarins í kvennadeildinni.


Helga Vala komin í FH


Hvernig er svo tilfinningin að vera komin í raðir FH?

Hún er mjög góð. Það er gaman að takast á við nýjar áskoranir hjá nýju félagi og ég hlakka mikið til þess að spila fyrir Fimleikafélagið.

Var mikið gengið á eftir þér?
Ég heyrði í öðrum liðum en sá fljótlega að FH yrði fyrir valinu enda er umgjörðin í alla staði mjög góð og hjá félaginu sá ég tækifæri fyrir mig til að þroskast frekar sem markvörður.

Er þessi hópur leikmanna líklegur til að koma á óvart í vetur?
Já, ég held það. Hópurinn er aðeins breyttur frá því í fyrra en þá var árangurinn heldur sveiflukenndur. Liðið náði nokkrum óvæntum úrslitum eins og á móti mínu gamla félagi, Stjörnunni, og við vitum því vel hvað við getum.  Í sumar höfum við æft vel og komum því til með að mæta mun sterkari til leiks en í fyrra. Hópurinn nær auk þess vel saman og ef við náum að spila okkar bolta þá er aldrei að vita hvað gerist!

Var erfitt að samlagast stelpunum húmorslega séð. Eru þær ekki létt-geggjaðar?
Létt?!?  Þær eru a.m.k. með húmorinn í góðu lagi, alltaf gaman á æfingum! Annars get ég ekki sagt að það hafi tekið mikið á að samlagast hvað húmorinn varðar en það er alltaf svolítið erfitt að skipta um lið og komast inn í hlutina á nýjum stað.

Hver er skrítnasti liðsfélaginn?

Það er án efa herbergisfélaginn minn hún Dísa! (Ég fæ örugglega einn fastan í smettið fyrir þetta…)

Hvaða markmið hefur þú sett þér fyrir veturinn, bæði persónulega og fyrir liðið?

Hópurinn hefur ekki sett sér markmið um ákveðið sæti í vetur en liðið er á uppleið og ætlar að vera langt fyrir ofan 7. sætið! Hvað mig sjálfa varðar þá hef ég nokkur markmið sem ég held fyrir sjálfa mig en ég hyggst auðvitað hjálpa liðinu eins og ég mögulega get við að ná í stig í vetur.

Vilt þú koma einhverjum skilaboðum áleiðis til FH-inga?
Ég hvet FH-inga eindregið til að mæta á leiki hjá okkur og strákunum, bæði lið að keppa í efstu deild og ætla sér flotta hluti í vetur!

Við óskum FH stelpum góðs gengis í leiknum í dag!
Áfram FH